Everton hefur staðfest að Carlo Ancelotti sé hættur sem stjóri liðsins og hafi skrifað undir samning við Real Madrid. „Ég hef notið þess að vera hjá Everton en ég fékk óvænt tækifæri sem ég trúi að sé rétt fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Ancelotti.
Zinedine Zidane sagði upp störfum í síðustu viku hjá Real Madrid, hann var ósáttur með Florentio Perez forseta félagsins.
Ancelotti var stjóri Real Madrid frá 2013 til 2015 og vann meðal annars Meistaradeildina. Ancelotti stýrði Everton í eitt og hálft ár.
Koma Ancelotti gætu verið góð tíðindi fyrir Gareth Bale og framtíð hans en kantmaðurinn var í kuldanum hjá Zidane. Ancelotti hélt mikið upp á Bale þegar þeir unnu saman síðast.
Þá er það sagður draumur Ancelotti að fá Cristiano Ronaldo aftur til félagsins og fá Kylian Mbappe frá PSG. Svona gæti byrjunarlið Real Madrid litið út ef draumur Ancelotti rætist.