Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, telur ekki rétt af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar að tjá sig um lög á Íslandi, Kári sé vísindamaður og læknir en ekki lagaspekingur. Hann ritar grein um þetta sem birtist hjá Vísi í dag.
„Læknirinn Kári Stefánsson hefur afrekað margt um ævina og eru margir honum þakklátir fyrir framlag hans í baráttunni við Covid-19 faraldurinn hér á landi. Á hinn bóginn er Kári ekki lagaspekingur og skýringar hans á tilteknum atriðum sóttvarnarlaga nr. 19/1997, sem settar voru fram í grein hans á visir.is, 10. apríl sl., báru þess vitni. Þörf er á að fjalla nánar um þessi lagaatriði.“
Helgi skýrir svo nákvæmlega hvað felst í sóttvarnarlögunum. Lögunum var breytt í byrjun febrúar og var skilgreiningu bætt inn í lögin bæði á því hvað hugtakið sóttkví feli í sér sem og hvað sóttvarnarhús feli í sér.
„Aðalatriði skilgreiningarinnar á sóttkví er að hún er takmörkun á athafnafrelsi einstaklings sem grunur leikur á að hafa verið útsettur fyrir smiti en er ekki veikur. Jafnframt er það hugtaksatriði að sá sem sætir sóttkví tryggi slíkan aðskilnað frá öðru fólki að komið sé í veg fyrir hugsanlega útbreiðslu farsóttasýkingar.“
Hins vegar felist í þessari skilgreiningu ekki sjálfkrafa heimild til yfirvalda til að skerða athafnafrelsi einstaklinga með því að skikka þá í sóttkví annars staðar en heima hjá sér.
„Sem dæmi, maður sem er búsettur á Súðavík, og er þar staddur þegar viðkomandi er gert skylt að sæta sóttkví, þarf ekki að þola það að yfirvöld flytji hann til Grímseyjar til að hann taki út sóttkvína þar.“
Sóttkvíarhugtakið þarf að skilgreina í samhengi við önnur ákvæði sóttvarnarlaga, meðal ananrs ákvæði þar sem segir að við beitingu sóttvarnarráðstafanna þurfi að gæta meðalhófs og taka tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sem og mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
Hvað sóttvarnarhús varðar bendir Helgi á að eitt skilyrði þess að fólki sé gert skylt að dvelja í slíku húsi sé að grunur sé uppi um að viðkomandi sé smitaður af farsótt eða með staðfest smit. Svo komi einnig til fleiri skilyrði. Meðal annars það að viðkomandi eigi ekki samastað á Íslandi eða geti af örðum sökum, eða hafi ekki vilja til, að einangra sig í húsnæði á eigin vegum.
„Þegar lesnar eru saman skilgreiningar á sóttkví og sóttvarnarhúsi er auðsætt að einstaklingur, sem hefur samastað hér á landi, og vill og getur sætt sóttkví í húsnæði á eigin vegum, getur ekki verið þvingaður til að taka út sóttkví í sóttvarnarhúsi.“
Ástæða þess að Kári hafi undanfarna daga fjallað um íslensk lög sé úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sóttvarnaryfirvöld gætu ekki þvingað þá sem kæmu til Íslands frá áhættulöndum í sóttkví í sóttvarnarhúsi þegar viðkomandi gætu sýnt fram á samastað hér á landi og lýstu yfir vilja til að taka út sóttkví þar.
„Að mati Kára, sóttvarnaryfirvalda og jafnvel margra annarra, er talið nauðsynlegt að slíku fyrirkomulagi sé komið á til að ná betri stjórn á Covid-19 faraldrinum. Það mat kann að vera rétt. Vandinn er hins vegar sá að fyrirkomulag af þessu tagi þarf að styðjast við ákvæði í lögum en ekki eingöngu vera reist á fyrirmælum frá stjórnvöldum. Ef niðurstaða héraðsdóms hefði orðið önnur, hefði í raun og veru verið fallist á að stjórnvöld gætu svipt einstaklinga frelsi án lagaheimildar.“
Helgi fagnar því að réttarkerfi Íslands hafi staðist þessa prófraun og að grundvallarreglur stjórnskipunar hafi sannað gildi sitt.