Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru vegna nauðgunar sem átti sér stað 10. ágúst árið 2008 á hótelherbergi. Ekki kemur fram hvar á landinu árásin átti sér stað, en maðurinn á lögheimili á Akureyri.
Maðurinn sem ákærður er fyrir nauðgunina er sagður í ákærunni hafa kastað sér á fórnarlamb sitt þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu. Mun hann hafa haldið henni þar fastri þar til hún féll í gólfið í átökum við manninn. Maðurinn hélt henni niðri á gólfinu og greip um fótleggi hennar þegar hún reyndi að standa upp svo að hún skall niður á gólfið á hnén og svo á bakið. Setti árásarmaðurinn meintur þá hné í brungu hennar. Konan skreið þá upp í rúmið aftur þar sem maðurinn nauðgaði henni. Konan hlaut af árásinni ýmsa áverka svo sem marbletti, núningssár, rispur á maga og sprungur á kynfærum.
Konan krefst þess að maðurinn verði dæmdur til þess að greiða konunni sex milljónir í miskabætur auk skaðabóta og að maðurinn greiði kostnað vegna réttargæslumanns.
Saksóknari gerir þá kröfu í ákærunni að maðurinn verði dæmdur til refsinga og að greiða allan sakarkostnað
Athygli vekur að ákæran er gefin út í apríl á þessu ári vegna atburðar sem átti sér stað árið 2008. Í samtali við DV varðist Katrín Hilmarsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, allra fregna af málinu og sagðist ekki getað tjá sig um ástæður þess að 12 ár liðu á milli atburðar og ákæru.