Í morgun vöknuðu landsmenn við breyttan veruleika: Samkomutakmarkanir, þær hörðustu síðan snemma í vor, eru enn á ný hluti af okkar daglega lífi.
Hér að neðan er það listað upp sem landsmenn þurfa að vita til þess að komast í gegnum sitt daglega amstur næstu daga:
Meginreglan er og verður næstu tvær vikur að aðeins 20 manns megi koma saman.
Líkamsræktarstöðvum, krám, skemmti– og spilastöðum verður lokað.
Sundlaugar verða opnar og mega taka á móti 50% af þeim sem þau hafa öllu jafna leyfi fyrir.
Eins metra regla verður áfram í gildi, þar sem ekki er hægt að tryggja að einn metri verði á milli fólks er skylda að nota andlítsgrímur. Af því leiðir að hárgreiðslustofur, tannlæknar og snyrtistofur, til dæmis, verða áfram opnar. Þar er áfram grímuskylda.
Strætó setti sér þá reglu að grímuskylda verður í strætó.
Talsverður fjöldi undantekninga er nú listaður í reglugerð ráðherra og eru eftirfarandi aðilar undanþegnir fjöldatakmörkunum:
Alþingi og störf þessu eru undanskilin takmörkunum.
Dómstólar einnig, þegar þeir fara með dómsvald sitt.
Viðbragðsaðilar eins og slökkvilið, björgunarsveitir, lögregla og heilbrigðisstarfsfólk er undanþegið fjöldatakmörkunum.
Við jarðarför mega vera 50 manns.
Verslunum undir 1.000 fermetra að stærð mega hleypa 100 einstaklingum inn í sama rými á hverjum tíma og einum viðskiptavini í viðbót fyrir hverja 10 fermetra umfram þúsund fermetrana. Þó verður hámark 200 manns í einu. Sem dæmi er húsnæði IKEA í Kauptúni rúmir 21.000 fermetrar, og því má búast við að 200 manns megi vera þar inni í einu. IKEA tilkynnti fyrr í morgun matsölustaður IKEA og kaffihúsið yrði lokað og gestir verslunarinnar beðnir um að gæta vel að persónulegum sóttvörnum og nota hanska og grímur þar sem við á. Tilkynningu IKEA má sjá hér að neðan.
Aðrar stórar verslanir, svo sem Byko, Húsasmiðjan, Elko, Costco hafa ekki tilkynnt breytingar á sinni starfsemi.
Heimilt verður að halda sviðslistaviðburði þar sem 100 manns koma saman í afmörkuðu hólfi. Sæti skulu vera númeruð, nafn gesta í hverju sæti skráð og öllum áhorfendum ber að nota andlitsgrímu.
Í framhalds- og háskólum verður miðað við 30 manns.
Leik- og grunnskólar: Engar hömlur gilda hjá börnum sem eru fædd 2005 og síðar en hjá þeim sem eldri eru gildir 30 manna hámarksregla í hverju rými, 1 metra fjarlægðarmörk og grímuskylda sé ekki hægt að virða fjarlægðarmörk.
Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Áhorfendur á íþróttaleikjum: Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra mega 100 áhorfendur koma saman í hverju hólfi og í númeruð sæti.