Í dag birti Daily Mail ljósmyndir sem sýna eitt fórnarlamba Jeffrey Epstein, nudda axlir Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Umræddar myndir eiga að hafa verið teknar árið 2002, en þá var Clinton 56 ára, en Chauntae Davies, sú sem nuddar hann, einungis 22 ára. Umræddar myndir eiga að hafa verið teknar á litlum flugvelli í Portúgal á ferð Clinton, Epstein og fleiri til Afríku árið 2002.
Chauntae Davies hefur ásakað Jeffrey Epstein um að nauðga sér nokkrum sinnum, en Epstein hefur líkt og frægt er orðið verið ásakaður um að halda úti einum umfangsmesta mansalshring sem sögur fara af. Hann lést í fangelsi í fyrra, dánarorsök hans er sögð vera sjálfsmorð, þó eru ekki allir sammála um það.
Davies, lærður nuddari á að hafa starfað sem flugfreyja í ferðalaginu. Hún hefur sagt að það hafi komið sér á óvart þegar að Clinton steig um borð í vélina. Þegar þau stoppuðu á flugvelli í Portúgal hafi fyrrum forsetinn beðið um nudd vegna óþæginda í hálsi. Davies vill meina að Clinton hafi verið „ekkert nema herramaður“ alla ferðina og ekki sýnt neina afbrigðilega hegðun.
Í kvöld á Clinton að fara með ræðu til stuðnings forsetaefni demókrata, Joe Biden, en um þessar mundir fer á ársfundur flokksins fram.