Liverpool er Englandsmeistari árið 2020 eftir leik Chelsea og Manchester City í gærkvöld. Það hefur lengi legið í loftinu að Liverpool yrði meistari en liðið hefur aðeins tapað einum leik í deildinni. Manchester City þurfti að vinna Chelsea í gær til að tefja enn frekar en liðið tapaði 2-1 á Stamford Bridge.
Þetta er fyrsti sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en liðið vann síðast árið 1990 þegar úrvalsdeildin var ekki stofnuð. Liverpool er með 86 stig á toppi deildarinnar, 23 stigum á undan City sem vann titilinn í fyrra. Afrek Liverpool er magnað en sjö umferðir eru eftir af deildinni.
Það er sárt fyrir erkifjendur Liverpool í Manchester United að horfa upp á liðið verða meistara. United hefur verið í krísu síðustu ár á meðan Liverpool blómstrar.
„Öll lið sem vinna deildina eiga það skilið, Liverpool á hrós skilið. Það er erfitt að vinna þessa deild,“ sagði Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United í dag.
„Vel gert hjá Jurgen og hans leikmönnum. Það er sárt að sjá annað lið vinna deildina, ég held að það sé sama tilfinning hjá öllum sem tengjast Manchester United. Við viljum komast aftur á þennan stað og berjast um titla.“