„Þessar tunnur eru bara ekki að sinna sínu hlutverki. Það eru allir vanir því að labba fram á þetta svona, botninn úr og allt ruslið fjúkandi út um allt. Svo kemst mávurinn mjög auðveldlega í þetta líka og pikkar út það sem hann vill éta, meðan það sem hann fúlsar við fýkur um allt,“
sagði athafnamaðurinn Einar Bárðarson og einn duglegasti plokkari þjóðarinnar við DV í morgun, eftir að hann birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann hafði gengið fram á ruslahrúgu í Heiðmörk, þar sem botninn hafði dottið úr ruslatunnunni með tilheyrandi afleiðingum. Skorar hann á sveitarfélögin til að skipta tunnunum út fyrir betri lausnir, vilji þau hreint og fallegt umhverfi.
Hann segir að það sé verið að vinna að ágætis tilraunarverkefni í Árborg, þar sem smíðuð er hlíf yfir tunnurnar svo vargurinn komist ekki í ruslið, en betur megi ef duga skal:
„Út um allan heim eru betri og eflaust ódýrari lausnir til í þessu. Í Reykjavík er krökkum og unglingum oft kennt um að vera að sparka í tunnurnar þannig að botninn detti niður, ásamt ruslinu, en það er bara ekki alltaf þannig. Þetta eru bara ekki nógu góðar festingar. Við þurfum bara að kaupa alvöru græjur fyrir þetta.“
Einar segist hafa rætt við stjórnendur hjá mörgum sveitarfélögum um ruslamál, þar sem hann hafi verið áberandi í þessum málaflokki undanfarið og hann viti til þess að til séu fullt af betri lausnum en þessar grænu tunnur:
„Þessar grænu tunnur eru bara allsstaðar, en þær eru algerlega gagnlausar. Það þarf að skipta þeim út.“
segir Einar.
Einar lýsti því á samfélagsmiðlum í morgun hvernig aðkoman var í Heiðmörk og birti myndir.
„Er ekki komið fínt með þessa grænu gagnslausu tunnum. Hér uppí Heiðmörk mætti ég þessu ógeði í morgun. Hér eru engir unglingar að sparka í þetta þannig að hér fellur kenningin um að okkar góða unga fólk beri einhverja ábyrgð á subbuskapnum af þessu,“
Einar segir þessa tegund tunna veita falsöryggi:
„Ég skora á sveitarfélög landsins að hætta að bjóða upp á þetta fals öryggi. Skipta þessu út fyrir alvöru tunnur sem gera það sem til þeirra er ætlast. Þetta er drasl sem er ónýtt og ef botninn dettur ekki úr þessu þá týnir mávurinn ruslið uppúr tunnunni og dreifir um allt. Lifum í ábyrgð en ekki í rusli !“
segir Einar.