Landhelgisgæslan aðstoðaði í gær lögreglu og björgunarsveitarfólk á norðanverðum Vestfjörðum við leit að göngumanni sem hafði villst við Skálavík, vestan við Bolungarvík. Kom á daginn að göngumaðurinn hafði lent í sjálfheldu og fannst hann rétt fyrir klukkan sex í morgun. Maðurinn hafði hrasað og var með minniháttar áverka á höfði.
Segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að „[l]ögreglan á Vestfjörðum hafi óskað eftir aðkomu áhafnar varðskipsins Þórs, sem var statt í 28 sjómílna fjarlægð frá Skálavík, og þyrlusveitar laust eftir klukkan 23 í gærkvöld. Þyrlan hóf leit á svæðinu klukkan 00:45 og varðskipið Þór sigldi grunnt meðfram ströndinni frá Galtavita og alla leið að Bolungarvík og svo til baka í Skálavík þar sem leitað var í hlíðinni.“
Hitamyndavél um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar lék lykilhlutverk í leit að manninum. Segir Ásgeir Erlendsson, fjölmiðlafulltrúi Landhelgisgæslunnar að það hafði reynst erfitt að sjá manninn með berum augum.
Laust fyrir kl 6 í morgun hafi áhöfn TF-EIR fundið manninn í klettum við Skálavík. Var hann hífður um borð og flogið með manninn til Ísafjarðar þar sem hann var skoðaður af lækni.
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá atburðarrásina um borð í TF-EIR snemma í morgun.