DV hefur undir höndum ákæru þar sem manni er gefið að sök að hafa tvívegis sært blygðunarkennd barna. Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir sambærilegt athæfi og sagði DV frá því að maðurinn hafi lagt stund á að bera sig í glugga á jarðhæð fjölbýlishúss í Grafarvogi. Börnin eru 9 og 11 ára gömul. DV sagði fyrst frá málinu.
Samkvæmt umfjöllun DV, og af færslum á hverfasíðu íbúa Rimahverfis er um mörg tilfelli að ræða, en maðurinn er nú einungis ákærður fyrir tvö þeirra. Í því fyrra er maðurinn ákærður fyrir að hafa staðið við glugga á heimili sínu á jarðhæð, nakinn að neðan og snert þar kynfæri sín meðan hann fylgdist með börnum að leik utan við heimili sitt sumarið 2019.
Seinni ákæran snýr að öðru sambærilegu broti síðar það sumar þar sem manninum er sagður hafa staðið á nærfötum einum klæða og aftur snert kynfæri sín og fylgst með börnum að leik.
Krefjast saksóknarar að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Ennfremur gera foreldrar fjögurra ólögráða barna einkaréttakröfu á hendur manninum að fjárhæð 1.000.000 kr.- hvor auk vaxta og verðbóta og að hann greiði málskostnað þeirra vegna málsins.
Eins og áður sagði hefur maðurinn áður hlotið dóm fyrir sambærileg atvik. Árið 2011 var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot gegn börnum. Árið 2013 rauf maðurinn skilorð með sambærilegum verknaði og var dæmdur í sex mánaða fangelsi. Enn var maðurinn sakfelldur fyrir samskonar brot árið 2014, en þá þótti ekki fullsannað að hann hefði fróað sér og var hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Hlaut hann þá tveggja mánaða fangelsi.
Í dómi yfir manninum er haft eftir manninum í lögregluskýrslu „að þetta væri mjög eðlileg hegðun og að allir gerðu svona. Hann gæti ekki að því gert að einhverjum börnum þætti þetta ógeðslegt. Það kæmi þeim ekki við hvað hann gerði á sínu heimili.“