Skemmti- og veitingastaðurinn Spot matbar opnar eftir eigendaskipti á morgun. Staðurinn er mikið breyttur að sögn Eyrúnar Erlu Ólafsdóttur eins eigenda staðarins.
„Á síðustu sex til sjö vikum höfum við gjörbreytt staðnum. Við máluðum allt innandyra og utandyra, skiptum um merkingar og gólfefni. Hljóðkerfi, myndvörpum og tjöldum var skipt út og erum við nú með sjö tjöld þar sem við munum sýna fótbolta og aðrar íþróttir. Við erum sportbar þar sem áhersla verður lögð á að sýna íslenska boltann og þann enska. Ef enginn fótbolti verður í boði munum við sýna aðrar íþróttir.“
Elhúsið á staðnum var einnig tekið í gegn. „Við verðum með heitan heimilismat í hádeginu frá klukkan 11-14. Klukkan tvö tekur við sport-matseðill. Við munum meðal annars bjóða upp á fingramat, hamborgara, rif og pizzastangir með áleggi. Einnig erum við með vegan valkosti eins og vegan-hamborgara, salöt og pizzur. Við erum með matseðil fyrir börnin og eftirrétti þannig að Spot er kjörinn staður fyrir fjölskyldur og vinahópa“ segir Eyrún.
Alls konar afþreying verður í boði á Spot önnur en fótboltaáhorf segir Eyrún. „Við verðum með pool, pílukast og foosball á afmörkuðu svæði og svo erum við að leggja lokahönd á tvö karíókíherbergi. Annað verður með pláss fyrir tíu manns og hitt verður fyrir allt að þrjátíu manns.“
Spilakassar hafa lengi verið í boði á Spot og segir Eyrún að þeir verði enn þá á staðnum. „Við erum með helling af spilakössum frá Gullnámunni og Íslandsspilum í sér spilasal. Viðskiptavinir sem eru að koma að borða eða horfa á boltann verða ekki fyrir truflun af spilakössunum. Við ákváðum að halda okkur við spilakassana en munum endurskoða það ef þess verður þörf.“
Margir viðburðir eru fyrirhugaðir á Spot í sumar samkvæmt Eyrúnu. „Við verðum með dagskrá sem verður tengd við nokkrar vinsælar útihátíðir. Um verslunarmannahelgina munu til dæmis Greifarnir halda uppi stuðinu“.
Eins og reglurnar eru í dag eru allir viðburðir skipulagðir í samræmi við reglur um opnunartíma skemmtistaða vegna Covid-19 faraldursins. „Við vonum að sjálfsögðu að reglur um opnunartíma breytist. Við látum þetta samt ekki koma í veg fyrir að við bókum viðburði eða hópa í salinn“ segir Eyrún.
Þann 4. júlí verður ball með Páli Óskari frá klukkan 20:00-23:00 og býst Eyrún við góðri mætingu þrátt fyrir að því ljúki fyrir miðnætti. „Undirtektirnar eru góðar og fólk er spennt að komast á Palla ball.“
Á morgun verður opnunarpartý sem hefst klukkan 17:00. Fyrstu 500 gestirnir fá frían Tuborg á dælu sem verður á tilboði allt kvöldið og út júní mánuð á 500 krónur. Einar Ágúst og Gunni Óla úr Skítamóral munu skemmta gestum á morgun ásamt Birni Braga uppistandara og búast nýir eigendur við góðri stemningu.