Magnea Hrönn Örvarsdóttir hefur stefnt Jóni Ársæli Þórðarssyni, sjónvarpsmanninum landsþekkta, og RÚV, vegna sjónvarpsþáttarins Paradísarheimt. Samkvæmt heimildum DV er um sambærilegt mál að ræða og mál Gyðu Drafnar Grétarsdóttur en Jón Ársæll og RÚV voru í lok október í fyrra dæmd til að greiða henni eina milljón króna í bætur vegna umfjöllunar í þættinum sem sýndur var á RÚV vorið 2018.
Samkvæmt heimildum DV snýst mál Magneau um birtingu mynda og viðtals án leyfis og mun Magnea hafa, líkt og Gyða, beðið um að viðtalið yrði ekki birt. Um var að ræða nokkrar viðtalslotur og í að minnsta kosti einu tilviki var ekkert samráð haft við Magneu og ekki gefið samþykki fyrir viðtali. Líkt og Gyða Dröfn bað Magnea um að viðtölin yrðu ekki sýnd í sjónvarpinu en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni. Þetta staðfestir lögmaður Magneu, Guðbrandur Jóhannesson.
Fyrirtaka verður í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur næstkomandi föstudag. Hinir stefndu eru Jón Ársæll Þórðarson, dagskrárgerðarmaðurinn Steingrímur Jón Þórðarson og Ríkisútvarpið ohf.
Í máli Gyðu Drafnar viðurkenndi RÚV brot og bótaskyldu en ekki náðist samkomulag um upphæð bóta. Hvað mál Magneu varðar staðfestir lögmaður hennar að kröfubréf hafi verið send á alla þrjá stefndu, tveir hafi svarað og hafnað kröfum.
Þættir Jóns Ársæls vöktu sem fyrr segir nokkra athygli og voru ekki allir á eitt sáttir um þættina. Viðar Marel Magnússon sakaði Jón Ársæl um persónuverndarbrot eftir að Jón Ársæll birti myndskeið af Viðari í þættinum, sem og nafngreindi hann, án hans samþykkis. Viðar Marel var í heimsókn hjá frænku sinni en það var frænkan sem var viðmælandi Jóns Ársæls, ekki Viðar sjálfur. Viðar hafði verið staddur þarna fyrir tilviljun og kveðst ekki hafa verið samþykkur upptökunum.
„Ég bað Jón Ársæl tvisvar eftir upptökuna að annað hvort klippa mig út eða í það minnsta að blörra mig en nei, hann nafngreinir mig með fullu nafni og segir að ég sé sonur Megasar. Þetta verður harðlega kært.“
Ekki náðist í Jón Ársæl við vinnslu fréttarinnar. Sem fyrr segir verður fyrirtaka í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi föstudag en vænta má þess að aðalmeðferð verði í haust.