Víðir Reynisson segir daginn í dag sögulegan og fram undan sé sumar sem verður lengi í manna minnum. Í dag taka gildi tilslakanir á samkomubanni, þær fyrstu á vegferð okkar út úr COVID-19 faraldrinum og samkvæmt Víði var við því að búast að sumir Íslendingar yrðu eins og kálfar að vori í gleðinni. Það kom honum því harla á óvart að fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu væru fullar í morgun. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni þar sem Víðir ræddi samkomubann og tilslakanir við þáttastjórnendur.
„Þetta er að mörgu leyti mjög stór dagur. Sonur minn á afmæli í dag þannig að þetta hefur í mjög mörg ár verið merkilegur dagur hjá mér,“ sagði Víðir. En ekki nóg með að sonur hans eigi afmæli heldur tóku í dag gildi fyrstu tilslakanir í samkomubanni. Fjöldatakmarkanir í eitt rými eru nú 50 manns í stað 20. Starfsemi á borð við sjúkraþjálfun, hárgreiðslustofur, nudd, grunnskólar, framhaldsskólar, háskólar og tannlækningar – geta hafið starfsemi að nýju.
„Stærsta breytingin er kannski það að fara úr 20 í 50 á sama stað og fyrir marga vinnustaði breytir það miklu,“ segir Víðir. Mikið af afþreyingu og frístundum geti farið af stað aftur og til að mynda séu kvikmyndahús að skipuleggja sýningar með undir 50 áhorfendum. Sjálfur mun Víðir fagna í dag.
„Ég á klippingu klukkan níu og ég er mjög glaður með það.“
Aðspurður hvort að tíðindi morgunsins um fullar fangageymslur hjá lögreglu hafi komið honum á óvart sagði Víðir að við því hefði verið að búast að einhverjir Íslendingar myndu slaka aðeins of mikið á.„Það er bara eðlileg að þegar menn sjá aðeins út úr kófinu að menn slaki aðeins á.“ og þó það sé visst áhyggjuefni þá var við því að búast að einhverjir yrðu eins og „kálfar að vori“
Sérstakt sumar
Sumarið fram undan muni stimpla sig í sögu landsins sem sérstakt sumar. Ekki verður mikið um utanlandsferðir enda margt enn á huldu í þeim efnum, til að mynda fari það eftir takmörkunum í öðrum löndum og mögulegum skilyrðum um heilbrigðisvottorð. Línur eigi eftir að skýrast hvað þetta varðar og spili þar margir ólíkir þættir inn. Hins vegar bjóði þetta líka upp á að hugsa í lausnum og áforma öðruvísi, en engu að síður spennandi sumar.„Það er fullt af skemmtilegum hugmyndum sem eru í gangi núna sem maður getur stokkið á“
Útihátíðir
Víðir sjálfur hefur bókað tvær ferðir innanlands. Annars vegar ætlar hann að gista á Hótel Örk og hins vegar ætlar hann í gönguferð. Varðandi stórar útihátíðir í sumar þá eigi línur líka eftir að skýrast þar, en Víði þykir ljóst að skipuleggjendum slíkra hátíða eigi eftir að reynast erfitt að koma þeim í framkvæmd miðað við þær takmarkanir sem munu gilda, jafnvel viss ómöguleiki þegar um hátíðir er að ræða þar sem áfengi er jafnan haft við hönd, enda hafa áfengi og reglur gjarnan farið illa saman. Þegar hafi hátíðum ferið frestað, svo sem landsmóti hestamanna,
Víðir tekur þó ítrekað fram að við sem samfélag höfum staðið okkur eins og hetjur og hann leyfir sér að vona að það muni halda áfram. Í gegnum þennan faraldur hafi mikið verið fjallað um einstaka brot, en í heildina séu þau svo fá að það sé í reynd til fyrirmyndar.
Nú hafa daglegir fundir almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra liðið undir lok, en samkvæmt Víði er upplýsingagjöf enn mikilvæg. Því verða fundirnir þessa vikuna í dag, á miðvikudag og svo á föstudag og í kjölfarið verður metið hver þörfin á fundum verður eftir það. Með tilslökununum er við því að búast að eitthvað fari aftur að bera á smiti en það er þó von Víðis að menn haldi áfram að standa sig jafn vel og hingað til. Komi upp hópsýkingar, svo sem í skólum eða minni samfélögum verður frekar litið til þess að herða aðgerðir staðbundið frekar að en að herða aftur á samkomubanni fyrir landið allt. Hins vegar er ekkert útilokað í þessm málum og enn verður fylgst náið með stöðunni og gripið til aðgerða eftir því sem þörf krefur.
Hlýðir Víði
Víðir lenti í skemmtilegu atviki í BMVallá á dögunum. Hann er um þessar mundir í framkvæmdum á heimili sínu og ætlaði að bregða sér í BYKO en þurfti frá að hverfa þegar hann sá röðina til að komast þar inn.
Fyrsti maður sem ég mæti þar sem afgreiddi mig var í Ég hlýði Víði bol og við höfðum báðir mjög gaman af því. Þó svo Hlýðum Víði hafi orðið visst slagorð heldur Víðir að það sé kominn tími á nýtt slagorð. Þar sem við stöndum í þessum faraldri sem samfélag og framhaldið því sameiginleg ábyrgð okkar allra þá ætti nýtt slagorð að vera „Þetta er í okkar höndum“. Það sé svo ágætt að hugsa til þess hvort eitthvað af þessum reglum sem við fylgjum núna í samfélaginu, handþvottur, hreinlæti, spritt og fjarlægð við aðra, eigi ekki að vera upp að vissu marki komin til að vera. Því nú hafi það sýnt sig að aðrar umgangspestir, ekki bara COVID-19, hafa snar minnkað og því er samfélagið í heildina, í miðjum faraldri, að verða heilbrigðara. Það er nú ekki amalegt?