Kosta minna en nýr bíll
Fasteignaverð á landinu hefur rokið upp úr öllu valdi undanfarin misseri og eru mýmörg dæmi um einbýlishús sem selst hafa á 100 til 200 milljónir króna að undanförnu. En þau eru einnig til einbýlishúsin á landinu sem kosta lítið sé miðað við önnur hús, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.
Ódýrustu einbýlishúsin á landinu kosta þrjár milljónir króna, en samkvæmt fasteignavef mbl.is eru tvö hús til sölu á því verði. Annað þeirra er á Fáskrúðsfirði en hitt við Bíldudal. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir 10 ódýrustu einbýlishús landsins. Hafa ber í huga að ekki er tekið tillit til ástands húsanna, en sum þurfa augljóslega á talsverðu viðhaldi að halda.
10.) Lónabraut, 690 Vopnafirði
Stærð: 114,7 fermetrar
Byggingarár: 1946
Verð: 6,9 milljónir
Þetta hús er á góðum stað á Vopnafirði en eins og kemur fram í lýsingu þarfnast húsið töluverðs viðhalds. Húsið er byggt árið 1946 og er rúmir 114 fermetrar, eða eins og dæmigerð fjögurra herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Flott útsýni er yfir fjörðinn úr húsinu.
9.) Miðbraut, 690 Vopnafirði
Stærð: 71 fermetri
Byggingarár: 1949
Verð: 6,5 milljónir
Þetta hús er einnig á Vopnafirði en er öllu minna en húsið hér að ofan. Húsið er þó á tveimur hæðum ásamt geymslukjallara. Burðarvirki hússins þarfnast lagfæringar og því er mælt með því að kaupendur hafi fagaðila til að skoða eignina sem er með tveimur svefnherbergjum.
8.) Strandagata, Ólafsfirði
Stærð: 102 fermetrar
Byggingarár: 1927
Verð: 6 milljónir
Hér er á ferðinni rúmlega hundrað fermetra hús; íbúðarrými er 79 fermetrar og geymsla 24 fermetrar. Ekkert er fjallað um ástand hússins á fasteignavef Morgunblaðsins. Miðað við verðið, 6 milljónir króna, og myndirnar má þó ætla að húsið þarfnist viðhalds.
7.) Sólvellir, Bakkafirði
Stærð: 99 fermetrar
Byggingarár: 1951
Verð: 5,8 milljónir
Þetta hús er á Bakkafirði og hefur verið endurbætt talsvert upp á síðkastið. Þannig var það málað að utan árið 2013, gluggi lagaður og þá var ráðist í endurbætur að innan. Fjögur svefnherbergi eru í húsinu sem sagt er henta vel sem sumarhús.
6.) Miðvangur, Bakkafirði
Stærð: 85 fermetrar
Byggingarár: 1987
Verð: 5,4 milljónir
Hér er um að ræða ekki eiginlegt einbýlishús heldur parhúsaríbúð úr timbri. Húsið er þó skráð sem einbýli á vef Morgunblaðsins. Íbúðalánasjóður á íbúðina og eru áhugasamir kaupendur hvattir til að skoða hana með fagmönnum og mynda lagnir. Þrjú herbergi eru í húsinu.
5.) Öldugata, Flateyri
Stærð: 130 fermetrar
Byggingarár: 1946
Verð: 4,7 milljónir
Þetta hús stendur á Flateyri og er á tveimur hæðum. Sex herbergi eru í húsinu. Þak hússins lekur og má sjá ummerki um það í lofti og á gólfum herbergja á efri hæð. Þá eru lagnir gamlar að mestu. Íbúðalánasjóður á húsið og í sölulýsingu kemur fram að komið sé að viðhaldi og eru gluggar og gler lélegt að mestu. Þá eru innréttingar og tæki gömul.
4.) Tjarnarholt, Raufarhöfn
Stærð: 110 fermetrar
Byggingarár: 1976
Verð: 4,5 milljónir
Hér er um að ræða timburhús á Raufarhöfn sem byggt var árið 1976. Húsið er fjögurra herbergja og 110 fermetrar. Sérstaklega er tekið fram að eignin sé í mjög slæmu ástandi og þarnist töluverðra endurbóta. Komið er að viðhaldi á gluggum, gleri, útihurðum, timburklæðningu, þaki og þakkanti. Þá eru gólfefni og innréttingar léleg eða ónýt. Rakaskemmdir eru víða í eign.
3.) Fjarðarbraut, Stöðvarfirði
Stærð: 82 fermetrar
Byggingarár: 1950
Verð: 3,5 milljónir
Þetta hús er á Stöðvarfirði og kostar talsvert minna en nýr fólksbíll. Í sölulýsingu er tekið fram að húsið sem slíkt sé í ágætu standi en þarfnist lagfæringar innan dyra. Tvö svefnherbergi eru í húsinu.
2.) Langahlíð, Bíldudal
Stærð: 135 fermetrar
Byggingarár: 1898
Verð: 3,2 milljónir
Hér er á ferðinni hús sem var byggt undir lok 19. aldar, eða árið 1898. Húsið þarnast viðgerða; þak er ónýtt og þarf að skipta um það sem fyrst og þá er múrhúð í slæmu ástandi. Gólfefni eru að mestu ónýt og gler er lélegt en gluggar í lagi að hluta. Húsið er 135 fermetrar og eru tvö svefnherbergi í því.
1.) Skólavegur, Fáskrúðsfirði
Stærð: 78 fermetrar
Byggingarár: 1940
Verð: 3,0 milljónir
Hér er um að ræða tæplega 80 ára hús á Fáskrúðsfirði sem þarfnast mikils viðhalds. Gólfefni í húsinu eru léleg, gluggar og gler í lélegu ástandi, hurðar eru lélegar og þá eru víða mygla og rakaskemmdir í húsinu. Þá er þakið mjög lélegt og rafmagn þarfnast endurnýjunar. Klæðning á húsinu er einnig mjög léleg. Húsið þarfnast því mikils viðhalds að innan og utan en á móti kemur að það er ódýrasta einbýlishús landsins.