fbpx
Fimmtudagur 17.júlí 2025
Fréttir

Guðrún sakar ræstingafólk um þjófnað: „Ekki margar alþýðukonur sem hafa átt svona fínan demantshring“

Ekki er beðið um sakavottorð við ráðningar í heimaþjónustu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 16. september 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir heldur því fram að starfsfólk frá Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar hafi stolið frá sér tveimur skartgripum í sumar. Guðrún Guðmunda er 85 ára gömul, býr í fjölbýlishúsi við Fornhaga og hefur nýtt sér heimaþrif frá borginni undanfarin ár. Um miðjan júlí hurfu gullhringur og forláta demantshringur af heimili Guðrúnar og telur hún ekki aðrar skýringar vera fyrir hendi en þá að kona sem kom til að þrífa hjá henni um þetta leyti hafi tekið hlutina ófrjálsri hendi – öðrum sé ekki til að dreifa. Guðrún dró lengi að tilkynna atvikið, bæði vegna heilsubrests og einfaldlega vegna áfallsins sem þetta olli, en hún er mjög óánægð með viðbrögð Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar við umkvörtun hennar.

DV tók hús á Guðrúnu í síðustu viku og fékk hana til að rekja söguna. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að DV leggur engan dóm á hvað gerðist og við vitum ekki hvernig skartgripir Guðrúnar hurfu. En þetta atvik vekur upp þær hugsanir að það er viðkvæmt mál að starfa á heimilum ókunnugs fólks. Þeir sem það gera eru með vissum hætti berskjaldaðir fyrir ásökunum af þessu tagi. Að sama skapi kann aldrað fólk að vera berskjaldað fyrir þeim sem sinna þjónustu á heimili þess.

Sem fyrr segir býr Guðrún í Vesturbænum, í fallegri íbúð sem hún og eiginmaður hennar fluttu inn í fyrir um 60 árum og áttu skuldlausa eftir 13 ára búskap. Eiginmaður Guðrúnar var sjómaður en hann lést úr krabbameini fyrir fjórum árum. Um það leyti hóf Guðrún að þiggja heimaþrif frá borginni. Á hálfsmánaðarfresti hafa komið til hennar konur, ein kona hverju sinni, og þrifið. Þjónustan er niðurgreidd og kostar innan við 1.200 krónur hvert skipti. Guðrún er ekki sérlega ánægð með þrifin:

„Það er búið að koma margt kvenfólk hingað í þessi þrif, bæði Íslendingar og útlendingar. Það er nú svo margt sem þær mega ekki gera, þær mega ekki þvo glugga, mega ekki þetta og hitt. En fyrst og fremst fara þær yfir gólfin, taka baðherbergið, þær eiga að þurrka af en þær eru nú alveg hættar því,“ segir Guðrún og víkur síðan sögunni aftur til sumarsins þegar skartgripirnir hennar hurfu:

„Ég á mikið af skartgripum en ég geng sjaldan með skartgripi á mér. Svo gerist það um miðjan júlí að ég fer í afmælisveislu hjá sonardóttur minni og bar þá forláta demantshring sem eiginmaður minn gaf mér þegar ég varð 31 árs. Hann var úr hvítagulli með sjö demöntum. Þegar ég kom heim úr boði gerði ég dálítið sem ég hef aldrei gert fyrr: Ég skelli hringnum í öskubakkann á kommóðunni.“

Guðrún geymir skartgripina sína í öskju í efstu kommóðuskúffunni. Hún segir að um þetta leyti hafi demantshringurinn horfið ásamt gullhring sem var í öskjunni. Aðspurð hvort einhver annar gæti hafa tekið þessa hluti en konan sem þreif hjá henni um þetta leyti þá segir hún ekki öðrum til að dreifa:

„Barnabörnin mín eru ekki þjófótt.“ – Barnabörnin heimsækja hana oft á sunnudögum en nær enginn annar kemur á heimilið fyrir utan konurnar sem hafa komið til að þrífa. Einn hlutur í viðbót hefur horfið:

„Ég átti afskaplega fallega rauða blússu með pallíettum – það kom kona hingað að þrífa í ágúst og blússan hefur ekki sést síðan þá. Hún er nú minnsta málið miðað við demantshringinn, en hún var fín og smart,“ segir Guðrún.

Mynd: Brynja

Tilkynnti seint um atvikið: Segist hafa mætt kulda og þumbaraskap af hálfu borgarinnar

Guðrún tilkynnti ekki um atvikið fyrr en um síðustu mánaðamót, nokkuð sem gerir alla rannsókn á málinu erfiða, ef ekki útilokaða. En hvers vegna tilkynnti þetta svona seint:

„Ég var mjög heilsulaus um þetta leyti en hef verið að braggast undanfarið. Síðan var þetta bara svo ofboðslega mikið áfall fyrir mig að ég átti erfitt með að gera nokkuð. Ég er hjartveik og þetta mál hefur farið mjög illa fyrir mig. Svekkelsið er svo mikið, sérstaklega út af demantshringnum sem maðurinn minn sálugi keypti handa mér í Antwerpen, en hann var sjómaður. Það eru ekki margar alþýðukonur sem hafa átt svona fínan demantshring,“ segir Guðrún. Hún hringdi fyrst í Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar út af málinu:

„Konan sem svaraði mér var snubbótt og leiðinleg og sagði: Þú verður bara að hringja í lögregluna. Hún vildi ekkert fyrir mig gera, en það hefði nú verið hægt að fletta upp á því hver hafði verið að þrífa hjá mér um þetta leyti og tala við viðkomandi,“ segir Guðrún.

Að sögn Guðrúnar komu tveir lögregluþjónar á heimilli hennar vegna málsins og röbbuðu við hana en þeir vísuðu síðan á rannsóknarlögreglu. „Þetta fólk var afskaplega elskulegt við mig en þau gátu ekkert gert í málinu. Rannsóknarlögreglumaðurinn sagði að það þyrfti að leysa þetta mál innan heimaþjónustunnar.“

Segir mál alltaf rannsökuð

Þrif heima hjá eldri borgurum falla undir Heimaþjónustu Reykjavíkur en innan þeirrar deildar er líka heimahjúkrun. Deildin fellur undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og þar er Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri. Berglind svaraði greiðlega fyrirspurnum DV vegna málsins. Þar kom meðal annars fram að ekki er óskað eftir sakavottorði við ráðningar í heimaþjónustu. Það er hins vegar gert varðandi ráðningar í ýmsum öðrum málaflokkum, t.d. þegar fólk er ráðið til starfa í grunnskólum og leikskólum.

Varðandi það að Guðrúnu hafi verið vísað til lögreglu segir Berglind: „Það gildir jafnt um þrifnaðarþjónustuna og heimahjúkrunina að ef það koma upp ásakanir um þjófnað eða annað ólöglegt athæfi þá byrjum við alltaf á því að vísa málinu til lögreglu. Það sýnir bara hvað við tökum þessi mál alvarlega, það ber að vísa sakamálum til lögreglu og við erum ekki þess umkomin að rannsaka sakamál. Svona mál eru alltaf orð á móti orði og það verður ekki framhjá því litið að margir skjólstæðinga okkar eru með heilabilun, einkenni á slíkum sjúkdómi eru gjarnan að ásaka fjölskyldu og aðra um þjófnað. Sem betur fer eru svona mál sjaldgæf en það er mjög eðlilegt að þau komi upp,“ segir Berglind.

Í þessu tilviki var tilkynnt um atvikið mjög seint, gæti það hafa valdið því að málið var ekki rannsakað innan Heimaþjónustunnar, hver hafi verið að vinna á þessum tíma og svo framvegis?

„Það er alveg hægt að gera það og ég tel víst að svo hafi verið gert þó að ég þekki ekki þetta tiltekna mál.“

Eru þeir sem vinna inni á heimilum fólks ekki nokkuð berskjaldaðir fyrir ásökunum?

„Já, vissulega. En sem betur fer eru þessi mál mjög sjaldgæf. Við verðum líka að fara mjög gætilega í þessi mál og verja okkar starfsfólk. Og þar sem málin eru ólík og einstaklingarnir ólíkir þá er erfitt fyrir okkur að hafa staðlað og konkret verkferli í svona málum. En ef sami einstaklingurinn er ásakaður oftar en einu sinni þá lítum við málið mjög alvarlegum augum og gerum ráðstafanir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Norskur ólympíuverðlaunahafi varð fyrir eldingu og lést

Norskur ólympíuverðlaunahafi varð fyrir eldingu og lést
Fréttir
Í gær

Fjölskylda Ghislaine Maxwell sakar bandarísk yfirvöld um rangláta málsmeðferð og hylmingu í Epstein-málinu

Fjölskylda Ghislaine Maxwell sakar bandarísk yfirvöld um rangláta málsmeðferð og hylmingu í Epstein-málinu
Fréttir
Í gær

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður
Fréttir
Í gær

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Í gær

Eldgos hófst í nótt: Á heppilegum stað og virðist ekki ógna innviðum

Eldgos hófst í nótt: Á heppilegum stað og virðist ekki ógna innviðum