fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Logi spyr: Eru Íslendingar búsettir á Spáni siðlausir? „Einhvers konar arðrán“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. febrúar 2020 13:20

Logi Bergmann.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er það bara alveg eðlilegt að valsa með snjallsímann sinn, á íslenskum ráðstöfunartekjum, um útlenskar kjörbúðir með starfsfólk á lúsarlaunum, að mynda lága verðið? Deila því svo út um allt og tala um að allt sé hræðilegt á Íslandi?“

Þetta segir fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson í vikulegum pistli sínum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Í pistlinum bendir Logi á vinsælt umfjöllunarefni á kaffistofum landsins, lífið á Íslandi í samanburði við lífið í útlöndum, þá einna helst Spáni.

„Það er allt miklu betra í útlöndum“

„Síðustu vikur hefur gengið yfir alda frásagna um hvað Ísland sé ömurlegt þegar kemur að því að draga fram lífið. Fram hafa komið alls kyns sögur frá fólki sem býr erlendis sem segir að við séum að gera gamla fólkinu algjörlega ómögulegt að draga fram lífið. Ísland sé dýrasta land í heimi. Engu skiptir þótt endalausar rannsóknir sýni að fá lönd hafi meiri kaupmátt og betri lífsskilyrði. Það er allt miklu betra í útlöndum. Og rökin eru sannfærandi.“

Logi segir að við heyrum einnig margar sögur af fólki á Íslandi sem hefur það skítt. Það efist enginn um þær frásagnir. Sjálfur segist Logi ekki hafa tölu á sögum um fólk í útlöndum sem er alltaf úti að borða – það kosti nánast ekki neitt á meðan það er rándýrt á Íslandi.

Hærri laun = Dýrara að lifa

Logi segir að flestar af þessum sögum komi frá Spáni en þær komi einnig frá Ungverjalandi. Hann bendir á dæmi sem sýna það er ekki endilega allt miklu betra í útlöndum.

„Við skulum taka þessi tvö lönd sem dæmi. Það er klárlega rétt að verðlag er mjög hátt á Íslandi og miklu lægra á Spáni. Sérstaklega þegar kemur að matvælum. Og að það er jafnvel enn ódýrara að búa í Ungverjalandi. Skýringin liggur kannski í laununum. Meðallaun á Íslandi eru 5.192 evrur, á Spáni 2.244 og Ungverjalandi 1.151. Það segir okkur að laun á Íslandi séu hátt í fimm sinnum hærri en í Ungverjalandi.“

Logi segir að nú gæti einhver sagt að ekkert sé að marka meðallaun en hann tekur einnig saman upplýsingar um lágmarkslaun í þessum löndum.

„Lágmarkslaun á Íslandi eru 2.330 evrur (hækka í 2.438 1. apríl). Á Spáni 1.050 evrur, í Ungverjalandi 309. Hlutföll ellilífeyris eru svipuð. Mér segir svo hugur að það sé ekkert sérstakt að lifa af þessum launum. Svo má nefna að á Spáni eru um 14% íbúa án vinnu en 3,5% á Íslandi og Ungverjalandi. Ef við skoðum samhengi hlutanna virðist ákveðin regla vera nokkuð ljós. Þar sem laun eru hærri er dýrara að lifa. Það hefur líka verið litið á það sem eitt af lögmálum markaðarins.“

Er ekki eitthvað bogið við þetta?

Logi bendir á – eins og frásagnir í fjölmiðlum hér á landi eru til vitnis um – að einhverjir hafi brugðið á það ráð að flytja til láglaunasvæða til að hafa það betra í ellinni. Logi segir að það sé skiljanlegt, þó ekki væri nema bara til að losna við lægðirnar sem ganga yfir landið fyrstu mánuði ársins.

„Síðustu ár höfum við reynt að bregðast við því þegar erlendir ríkisborgarar, sem flytjast hingað til að vinna, fá lægri laun en Íslendingar. Það er sanngirnismál því þeir búa hér, jafnvel þótt þessi lágu laun þeirra séu miklu hærri en þeir gætu nokkru sinni fengið í heimalandinu. Ef við myndum til dæmis borga Hvítrússa laun samkvæmt lágmarkslaunum heimalands hans fengi hann 129 evrur á mánuði. Það eru tæpar 18 þúsund krónur. Það viljum við ekki,“ segir Logi sem spyr hvort það sé ekki eitthvað rangt við það að fólk flytji með íslenskar tekjur sínar og lifi á afrakstri láglaunamanna í öðrum löndum.

„Er ekki eitthvað siðferðislega rangt við það? Einhvers konar arðrán, svo notað sé orð sem virðist vera að skjóta upp kollinum aftur. Er það bara alveg eðlilegt að valsa með snjallsímann sinn, á íslenskum ráðstöfunartekjum, um útlenskar kjörbúðir með starfsfólk á lúsarlaunum, að mynda lága verðið? Deila því svo út um allt og tala um að allt sé hræðilegt á Íslandi? Hittir þetta sama fólk einhvern tímann spænskan eða portúgalskan ellilífeyrisþega sem dásamar hversu gott er að lifa af ellilífeyrinum í heimalandinu?“

Logi endar pistilinn á þeim orðum að ýmislegt megi segja um verðlag á Íslandi, samkeppni líka, áfengisverð og skatta. „En það verður að hafa í huga að laun eru yfirleitt það sem hefur mest áhrif á verðlag. Því hærri sem launin eru – því dýrara er að lifa. Og varla getum við öll flutt til Spánar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd