fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Halldór: Ísland er óafsakanlega dýrt land – „Ég þekki heilan mökk af ungu fólki sem hefur flúið Ísland“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. janúar 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég þekki sjálfur heilan mökk af ungu fólki sem hefur flúið Ísland, kannski ekki einungis af efnahagslegum ástæðum, en það er svo sannarlega ein mikilvægasta forsendan,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður.

Óhætt er að segja að pistill sem Halldór flutti í Lestinni á Rás 1 hafi vakið mikla athygli, en pistillinn var birtur síðdegis í gær á vef RÚV. Í pistlinum, sem ber yfirskriftina Ísland er óafsakanlega dýrt land, fjallar hann meðal annars um verðlag á Íslandi og þá staðreynd að margir landsmenn sjá hag sínum best borgið utan landsteinanna.

Á ekki efni á að búa í eigin landi

„Ísland er samkvæmt nýjustu fréttum dýrasta land í heiminum. Þetta kom fram hjá fréttamiðlinum Business Insider í liðinni viku. Kaupmáttur Íslendinga er hins vegar minni en annarra ríkja sem ná inn á topp 10 listann. Ég veit ekkert hvaða vísindi eru bakvið þessar tölur en þetta þýðir að af tíu dýrustu ríkjum heims sé Ísland dýrast en um leið sé fólkið þar fátækast af þessum sömu tíu ríkjum. Íslendingar eru með öðrum orðum þjóð sem á ekki fyrir því að búa í sínu eigin landi,“ sagði Halldór og gagnrýndi um leið að þessum fréttum væri ekki fylgt eftir í fjölmiðlum eða á hinu pólitíska sviði.

Halldór bendir á að jörðin sé býsna stór og spyr hvað það er við Ísland sem verðskuldar þau örlög að landið sé það dýrasta í heimi.

„Hvað réttlætir þetta? Af hverju þykir þetta sjálfsagt? Þau takmörkuðu svör sem um þetta dularfulla mál fást eru yfirleitt eitthvert muldur um að lífskjör séu svo há á Íslandi. Jú, jú, þau eru ágæt ef maður [er] í öruggri og vel launaðri vinnu, en það vita það samt allir sem hafa búið erlendis lengur en í hálft ár, að lífið er víða mun þægilegra viðfangsefni en norður í Atlantshafi, ekki síst vegna þess að þar býðst fólki sá valkostur að lifa spart, sem er ekki í boði á Íslandi.“

Búa 50 milljón Bandaríkjamenn erlendis?

Halldór fer svo yfir býsna athyglisverðar tölur þess efnis að 50 þúsund Íslendingar búi erlendis. Þetta er býsna mikill fjöldi ef litið er til heildarfjölda Íslendinga. „Skyldu 10 milljónir Breta búa erlendis, 50 milljón Bandaríkjamenn, 900 þúsund Danir, 196 milljónir Kínverja? Nei, ég held að þetta sé hlutfall sem þekkist hvergi annars staðar. Þetta er með algjörum ólíkindum, og eins og svo margt sem er lyginni líkast á Íslandi, sést þetta varla í opinberri umræðu.“

Halldór segist þekkja mikið af ungu fólki sem hefur yfirgefið Ísland. Það hafi ekki bara komið til af góðu að þetta fólk hafi leitað til útlanda. „Hérna er ég ekki að tala um neina skiptinema, heldur fólk sem hefur raunverulega sagt sajonara og farið. Og ef þú gengur á þetta fólk og spyrð það um ástæðuna, þá er svarið yfirleitt að því finnst Ísland ólífvænlegur staður, það sér ekki fyrir sér að geta átt gott líf þar, og ofbýður íslensk hugmyndafræði; það er að segja hvernig samfélagið er rekið – sem aftur er ein af meginástæðum þess af hverju það er svona ævintýralega dýrt að lifa þar – sem og vitaskuld allar haldlausu lygarnar sem þessi hugmyndafræði er smíðuð saman úr.“

Hann segist einnig hafa rætt við fólk sem vinnur mikið með eldri borgurum sem segir algengt að þessir sömu eldri borgarar séu á leiðinni í burtu frá Íslandi. „Ekki af því það vill fara, heldur af því það neyðist til þess. Það einfaldlega á ekki fyrir því að búa í dýrasta landi í heimi. Sjálfur gleymi ég því aldrei þegar ég sá lífeyrisgreiðslur afa míns heitins, og sá þar svart á hvítu hverju það skilar að gera ekkert annað en að vinna og borga skatta á Íslandi í hálfa öld.“

Enginn stöðugleiki á Íslandi

Halldór kemur víða við í pistlinum og segir að sífellt sé verið að lýsa yfir óvissuástandi vegna veðurs og jarðhræringa – gulum, appelsínugulum og jafnvel rauðum viðvörunum.

„Hið sama ætti með réttu að gera fyrir önnur svið þjóðfélagsins. Það er alltaf appelsínugul viðvörun í tilvistarmálum fyrir þorra manna á Íslandi. Það er óvissuástand á leigumarkaði, á húsnæðismarkaði, í verðbólgu- og verðlagsmálum, í afborgunarmálum, já, í hversdagslífinu almennt og yfirleitt. Það er enginn stöðugleiki nokkurs staðar.“

Halldór endar pistilinn á þessum orðum:

„Afraksturinn er sá að stór hluti íslensku þjóðarinnar getur ekki verið heima hjá sér, af því föðurland þess, móðurjörð þess, er dýrasti staður á jarðkringlunni. Fyrir ungt fólk getur það kannski á vissan hátt verið spennandi að flýja, en að hrekja eldri borgara úr landi, er viðbjóðslegt og óafsakanlegt. Ætlar virkilega enginn að verja hagsmuni þessa fólks?“

Hér má hlusta á eða lesa pistil Halldórs í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd