Fréttablaðið skýrir frá þessu. Blaðið fékk þetta staðfest hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þeir Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson fengu greiddar bætur í gær. Makar og börn Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski fengu einnig greiddar bætur.
Bæturnar skiptust svona:
Albert Klahn Skaftason 15 milljónir.
Guðjón Skarphéðinsson 145 milljónir.
Kristján Viðar Júlíusson 204 milljónir.
Tryggvi Rúnar Leifsson 171 milljón.
Sævar Marinó Ciesielski 239 milljónir.
Forsætisráðuneytið gerði sjálfstætt mat á þeim fjárhæðum sem sáttanefndin lagði til að yrðu greiddar. Niðurstaðan var að engar breytingar yrðu gerðar á bótafjárhæðunum nema í tilfelli Sævars Marinós en bætur til afkomenda hans voru hækkaðar um 15 milljónir.
Greiddur var lögmannskostnaður sem nemur fimm prósentum af bótafjárhæðunum. Heildargreiðslur ríkisins eru því 815 milljónir.
Bótagreiðslurnar koma ekki í veg fyrir að hægt sé að höfða dómsmál á hendur ríkinu þar sem hærri bóta verður krafist.