Hilmar Elísson hefur verið valinn Mosfellingur ársins 2019 fyrir það að bjarga sundlaugargesti í Lágafellslaug frá drukknun. Frá þessu er greint á Mosfellingur.is.
Hilmar var að synda í lauginni þann 28. janúar 2019 er hann kom auga á mann á botninum og sá strax að eitthvað var að. Hann kafaði eftir manninum og tókst með nokkru erfiði að koma honum á bakkann.
„Þegar ég var að synda eftir æfinguna sá ég mann liggja á botninum, þetta var í dýpri enda laugarinnar og ég sá strax að þarna var ekki allt með felldu. Ég kafaði eftir manninum, það tókst ekki í fyrstu tilraun en í annarri tilraun náði ég til hans. Ég kallaði svo á hjálp við að koma manninum upp á bakkann.
Það var heppilegt að á staðnum var maður sem starfað hefur sem slökkviliðsmaður í fjöldamörg ár og kunni vel til verka í svona aðstæðum. Okkur tókst að koma manninum upp á bakkann og þá hófust strax lífgunartilraunir. Það leið allavega mínúta þar til hann fór að sýna smá lífsmark. Sjúkraflutningamennirnir voru fljótir á staðinn.“
Hilmar segir upplifunina ekki skemmtilega, en mikilvægast að hafi verið að allt hafi farið vel. Hann segist einungis hafa verið hlekk í keðju er vann gott verk.