Halldór Auðar Svansson oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur segir það morgunljóst að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé óhæfur þar sem hann skorti bæði siðferðislegt hugrekki sem og allt raunveruleikaskyn. Í ávarpi til mannkyns sem Halldór Auðar birtir á Fésbókarsíðu sinni í dag segir hann að stór hluti af starfi Bandaríkjaforseta sé að geta tekist á við hættuástand og geta tekið af skarið og ávarpað fólk á virðingarverðan hátt. Þetta hafi tekist hingað til:
Síðan kemur Trump. Maðurinn sem getur ekki viðurkennt að annar Bandaríkjamaður hefur verið myrtur úti á götu, heldur babblar hann bara um „ofbeldi frá báðum hliðum“. Þetta er skýrt dæmi um skort á forystuhæfileikum,
segir Halldór Auðar og vísar til dauða Heather Heyer í mótmælunum í Charlottesville í Virginíu. Hann segir ástandið bara hafa farið versnandi:
Í bölsóti við fjölmiðla nokkrum dögum seinna reyndi hann að útskýra hvers vegna hann neitaði að viðurkenna það sem gerðist með því að tala um að hann vilji hafa allar staðreyndir á hreinu áður en hann tjáir sig. Þetta kemur frá „Twitter-forsetanum“, sem hefur ítrekað sýnt það í orðum og gjörðum að það sé ekki þannig. Honum er alveg sama um staðreyndir.
Eina niðurstaðan sem andlega heil og rökhugsandi manneskja getur komist að er að Trump forseta er alveg sama um dauða Heather Heyer.
Það sem hafi svo nelgt naglann í kistu Trump hafi svo verið viðbrögð hans við hryðjuverkunum á Spáni:
„Hann fór ekki að afla sér gagna. Hann var ekki rólegur. Hann fór beint á Twitter og talaði um gamla mýtu um hershöfðingja sem mun hafa ráðið niðurlögum íslamskra hryðjuverkamanna á mjög ofbeldisfullan hátt. Þetta var það sem hann stakk upp á við spænsk stjórnvöld að gera. Eitthvað hrottalegt sem er sprottið af hugarórum. Orð sem lýsa vel persónu Trumps.“
Segir Halldór Auðar að hvað sem fólki gæti fundist um hryðjuverk og hvernig takast eigi á við þau þá sé nauðsynlegt að vera með staðreyndir á hreinu, eitthvað sem Trump geti ekki gert:
Þetta er ekki misskilin hetja sem er jaðarsettur ef fjölmiðlum. Ég þarf ekki fjölmiðla til að trúa mínum eigin augum og eyrum. Framangreindar staðreyndir um Trump tala sínu máli. Þær þýða að hvað sem gerist í Bandaríkjunum, þá þarf maðurinn að víkja. Fyrir okkur öll.