Nú fer jólahátíðinni senn að ljúka og þá huga kannski einhverjir að skilnaði, enda nenna líklega fæstir að standa í slíku samhliða jólahaldi. Í janúar kemur VISA-reikningurinn, hversdagsleikinn kemst aftur á og kergja í samböndum gerir vart við sig að nýju.
En kostar eitthvað að skilja? Hvernig gæti kostnaður við hjónaskilnað litið út? DV tók saman gróflega áætlaðan kostnað við hjónaskilnað í dag.
Ódýri pakkinn
Ef þau sem í hlut eiga eru sammála um að hjónabandið sé liðið undir lok og tímabært að gera það opinbert, þá er kostnaður vegna þess ekki mikill. Í ódýra pakkanum gerum við ráð fyrir annars vegar barnlausum hjónum á leigumarkaði og hins vegar kjarnafjölskyldu með tvö börn, einnig á leigumarkaði.
Venju samkvæmt þurfa hjón fyrst að sækja um skilnað að borði og sæng hjá Sýslumanni. Slíkt leyfi kostar 5.000 krónur. Að sex mánuðum liðnum, séu einstaklingar sammála um skilnaðinn þá er hægt að sækja sameiginlega um lögskilnað. Ellegar getur annar aðilinn sótt um slíkan að 12 mánuðum liðnum. Kostnaður við lögskilnað hjá sýslumanni eru 6.000 krónur. Ef aðilar skipta svo eignum sjálfir sín á milli þá þarf ekki að koma til neinn auka kostnaður. Kjarnafjölskyldan þarf að gera samning um forsjá og meðlagsgreiðslur en einfalt meðlag er í dag 35.565 krónur. Sameiginleg forsjá er meginregla við skilnað en engu að síður gera lög í dag ráð fyrir að barn eigi lögheimili hjá öðru foreldri og verður hitt foreldrið þá meðlagsskylt. Því gæti meðlagskostnaður á annað foreldrið hjá kjarnafjölskyldunni orðið rúmar 70 þúsund krónur en algeng leið til að komast hjá þeim kostnaði væri að börnin hefðu lögheimili hvort á sínu heimilinu og meðlagskostnaður skiptist þá jafnt á milli foreldra og verður í reynd enginn. Ef aðeins væri eitt barn í spilinu þá væri hægt að semja um meðlagsgreiðslur, án þess að rukka þær, en um það verður að ríkja sátt.
Eignaskiptapakkinn
Ef hjón eiga fasteign saman þá þarf annaðhvort að selja hana og skipta hagnaði og skuldum á milli þeirra, eða annað hjónanna kaupir hitt út. Það hjónanna sem ætlar að kaupa hitt út úr eigninni þarf að standast greiðslumat. Algengur kostnaður við greiðslumat er á bilinu 5–10 þúsund krónur. Meginreglan við skilnað er svonefnd helmingaskiptaregla en í henni felst að allar eignir eru taldar hjúskapareign og á hvort hjóna fyrir sig tilkall til helmings hverrar slíkrar eignar. Þessi regla gildir þó ekki ef kaupmáli hefur verið gerður um eign eða ef um er að ræða arf sem gefinn hefur verið með því skilyrði að um séreign sé að ræða.
Deilupakkinn
Ef aðilar eru ósammála um að skilja, eða ósammála um fjárskipti, þá þarf að leita aðstoðar dómstóla með tilheyrandi kostnaði. Engin skylda hvílir á aðilum að leita sér lögfræðiaðstoðar, enda er það réttur fólks í einkamálum að flytja mál sín sjálft. Þó er það líklega sterkur leikur að leita sér slíkrar aðstoðar, sé ætlunin að fá fram besta mögulega niðurstöðu sér í hag. Algengur kostnaður vegna liðsinnis lögmanns er 25 þúsund krónur á tímann. Það er rukkað til tímagjalds fyrir tölvupóst, símtöl og flest samskipti aðila við lögmanninn og því getur gjaldið fljótt farið upp í hundruð þúsunda ef um flókin fjárskipti er að ræða.
Platínumpakkinn
Fyrir mjög ósátta, líkast til stóreignafólk, er hægt að fara platínumleiðina. Þá er hægt að leita liðsinnis Sveins Andra Sveinssonar sem tekur 50 þúsund krónur á tímann og jafnframt fara fram á framfærslu frá maka sínum meðan á skilnaði að borði og sæng stendur. Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað meðan á skilnaði að borði og sæng stendur og því þarf að taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslulífeyri þegar leyfi til skilnaðar að borði og sæng er veitt. Þá er hægt að fara fram á framfærslulífeyri frá því hjóna sem er tekjuhærra til að jafna út aðstöðumun og minnka fjárhagslegt áfall fyrir þann maka sem er tekjulægri. Tekjuhærri aðilinn gæti svo farið fram á að undantekningar yrðu gerðar á helmingaskiptareglunni með svonefndri skáskiptareglu. En hún kemur til greina þegar það væri bersýnilega ósanngjarnt að skipta eign til helminga. Til dæmis gæti hún komið til álita ef annað hjóna hafi átt eign við upphaf hjónabands sem hefur varað stutt.
Í platínumpakkanum hleypur kostnaðurinn á fleiri hundrað þúsundum vegna lögfræðikostnaðar, fjárskipta og framfærslu.
Framangreint er bara tekið sem dæmi og ljóst að ef viðkomandi eru á eitt sáttir með að skilja og taka það að sér sjálfir að skipta búinu, þá er kostnaðurinn ekki ýkja mikill, eða 11.000 krónur fyrir annars vegar skilnað að borði og sæng og hins vegar lögskilnað.