
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, er lítið sem ekkert hrifinn af skötunni sem margir Íslendingar gæða sér á um hátíðirnar ef marka má innslag í fréttatíma RÚV í kvöld. Þar líkir Sigurður skötusuðu við hryðjuverk sem eigi ekkert erindi inn í fjölbýlishús og ætti aðeins að eiga sér stað á öræfum eða annesjum.
„Almennt gildir regla um tillitssemi og umburðarlyndi og það er ekki tillitsemi að sturta svona óþverra yfir saklaust fólk, þetta er svona eins og hryðjuverkaárás á bragðlaukana. Þetta er ekki matur. Þetta er úldmeti og flokkast sem úrgangur samkvæmt öllum skilgreiningum og þetta eru svona barbarískar veislur og bara hryllilegt og lykt sem situr kannski í húsum fram eftir vori,“ þetta sagði Sigurður í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld þar sem hann fór ófögrum orðum um skötuna.
„Þú getur ekki sturtað svona óþef yfir sameigendurna bara þegjandi og hljóðalaust. Svona skötusuða á heima bara einhvers staðar upp á öræfum eða annesjum, fjarri siðaðra manna húsum.“
Húseigendafélaginu berist fyrirspurnir , sögur og erindi reglulega vegna skötusuðunnar. Fólk velti því fyrir sér hvort þetta sleppi ekki til því þetta sé jú bara einu sinni á ári. Sigurður bendir þá að bragði á að það er ekki í lagi að ljúga, svíkja eða brenna, þó það sé bara einu sinni á ári. Hann segir það jákvæða þróun að skötusuða sé í auknum mæli að færast á staði þar sem hún valdi ekki ónæði. Til dæmis í bílskúra. Eins veit blaðamaður af tilvikum þar sem skötur eru soðnar í hesthúsum.
Sigurður segir að sökum afstöðu sinnar gagnvart skötunni þá hafi hann verið nánast ofsóttur. Sýndir hann fréttamanni forláta belti sem ókunnugur maður gaf honum.
„Það kom maður til mín fyri einu ári og gaf mér þetta belti, ókunnugur maður. Og þetta er belti sem er með grafinni skötu á og búið til úr sköturoði. Ég spurði hann: Hvers vegna ertu að gefa mér þetta og hann svaraði: Bara gott að hugsa til þess að þú sért umvafinn skötu.“

Hvað segja lesendur? Er skatan vinur eða fjandi ?