Sky skýrir frá þessu og segir að þetta séu niðurstöður kínverskrar rannsóknar. Niðurstöður hennar voru birtar í vísindaritinu Neurology. Í rannsókninni voru svefnvenjur 31.750 heilbrigðra fullorðinna rannsakaðar. Meðalaldur þátttakenda var 61,7 ár. Rannsóknin náði yfir sex ára tímabil. Á þeim tíma voru 1.438 heilablóðföll staðfest hjá þátttakendunum og 119 tilfelli komu upp að auki sem talið er að hafi verið heilablóðföll.
Þeir sem sögðust sofa meira en níu klukkustundir á nóttu voru 23% líklegri til að fá heilablóðfall en þeir sem sváfu sjö til átta klukkustundir. Þeir sem fengu sér reglulega meira en 90 mínútna blund á daginn voru 25% líklegri til að fá heilablóðfall en þeir sem blunduðu í minna en hálfa klukkustund.
Þeir sem sváfu lengi á nóttunni og fengu sér líka langa blunda á daginn voru 85% líklegri til að fá heilablóðfall en þeir sem sváfu minna.
Þeir sem sögðust upplifa léleg svefngæði voru 29% líklegri til að fá heilablóðfall en þeir sem sögðust sofa vel. Þeir sem sváfu lengi og upplifðu léleg svefngæði voru 82% líklegri til að fá heilablóðfall.