Matvælastofnun varar neytendur við neyslu á graflaxi frá Ópal Sjávarfangi vegna greiningar listeríu. Þetta á við um graflax með lotunúmerið 01.40.49. Fyrirtækið hefur innkallað graflaxinn af markaði í samráði við Matvælastofnun, að því er segir í tilkynningu.
Innköllunin á eingöngu við um eftirfarandi lotu:
Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki og skila til verslunar eða fyrirtækisins gegn endurgreiðslu. Hægt er að hafa samband í síma 517 66 30 eða með tölvupósti opal@opal.is til að fá frekari upplýsingar.
Í tilkynningunni segir að aukið eftirlit hafi verið með fyrirtækinu frá því að listería greindist í vörum þess í byrjun árs. „Matvælastofnun tók sýni úr gröfnum og reyktum laxi í fyrirtækinu í desember og greindist listería í graflaxinum. Ópal sjávarfang hefur að kröfu Matvælastofnunar tekið reglulega sýni úr vörum þess til greiningar á listeríu. Listería hefur ekki greinst í innri eftirliti fyrirtækisins frá því að úrbótaraðgerðum lauk.“
Í tilkynningunni segir að Listeria monocytogenes geti orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.
Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum listeríu eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.