Morgunblaðið sagði í dag upp 15 manns þar á meðal hinum reynda blaðamanni Önnu Lilju Þórisdóttur. Anna Lilja hefur starfað á Morgunblaðinu í níu ár og þar á undan á öðrum fjölmiðlum. Í kveðju til Facebook-vina sinna lýsir Anna Lilja yfir áhuga fyrir því að starfa áfram í fjölmiðlum og kallar eftir atvinnutilboðum:
„Í morgun var mér sagt upp starfi sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu eftir 9 ára sérstaklega farsælan og fjölbreyttan feril. Þetta hefur verið frábær tími á góðum vinnustað með góðu fólki – ég hef fengist við allt á milli himins og jarðar; skrifað innlendar og erlendar fréttir um allt mögulegt, tekið viðtöl, skrifað pistla, gert myndskeið, verið fréttastjóri og vaktstjóri, skrifað fréttaskýringar og ég veit ekki hvað og hvað. Þó að Moggatíma mínum sé nú lokið, a.m.k. í bili, vona ég svo sannarlega að fjölmiðlaferlinum sé ekki lokið. Í hópi Facebookvina minna er aragrúi fjölmiðlafólks – endilega hafið samband – ég skoða öll atvinnutilboð.“