Vilhjálmur Garðar Kristjánsson, nemandi í þroskaþjálfafræði í Háskóla Íslands, þykir það furðu sæta að enn séu aðgengisvandamál hjá Háskóla Íslands. Í færslu á Facebook gagnrýnir hann sérstaklega aðgengið að húsnæði HÍ í Stakkahlíð, þar sem meðal annars er kennd þroskaþjálfafræði sem og starfstengt diplómunám fyrir nemendur með þroskahamlanir.
„Þá er víst að koma árið 2020 eftir rétt rúmlega mánuð. Seinustu tvö og hálft ár hef ég verið í Háskóla Íslands og verið að læra þar þroskaþjálfafræði. Það er nú kannski ekki saga til næsta bæjar en eitt umræðuefni innan skólans hefur mér þótt frekar merkilegt síðan ég byrjaði nám mitt þar.
Þetta umræðuefni er aðgengi. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég að vísa í aðgengi fólks að umhverfi sínu. Í því samhengi má t.d. nefna að ef halda ætti samkomu á þriðju hæð í lyftulausu húsi þá væri ekki aðgengi fyrir manneskju sem notar hjólastól að þessari samkomu. Að þessu dæmi er auðvitað auðveld lausn, halda samkomuna þar sem er betra aðgengi.“
Vilhjálmur bendir á að þegar komi að aðstöðu til menntunar sé enn mikilvægara að kennsla fari fram í húsnæði sem allir hafa aðgengi að.
„En hvað með réttinn til menntunar og að aðgengi sé viðeigandi fyrir alla nemendur? Háskóli Íslands hefur verið gagnrýndur áður fyrir slæmt aðgengi fyrir nemendur sem nota hjólastól eða vegna fötlunar sinnar þurfa betra umhverfi til að geta stundað nám sitt við skólann. […] Þetta umræðu efni er því ekki nýtt á nálinni. Reyndar langt þar í frá en það sem stuðar mig og fleiri snýr að byggingum Háskóla Íslands við Stakkahlíð ( gamli Kennaraháskólinn). Þessi bygging hýsir Menntavísindasvið Háskóla Íslands þar sem meðal annars er kennt Starfstengt diplómunám fyrir fólk með þroskahömlun. Aðgengi í þessari byggingu er þó því miður mjög ábótavant og furða ég mig á þessu ástandi.“
Útlistar Vilhjálmur í færslu sinni ýmis aðgengistengd vandamál í Stakkahlíð, en tekur þó fram að listinn sé langt frá því að vera tæmandi.
„Hér kemur því smá listi yfir furðulega slæmt aðgengi sem nemendur þurfa að sætta sig við hjá elsta háskóla landsins.
Vilhjálmur veltir því fyrir sér hvernig Háskóli Íslands, þrátt fyrir að gefa sig út fyrir að standa öllum opinn, komist upp með svona slæmt aðgengi.
„Í mínum huga er málið ósköp einfalt. Ef rými er þannig hannað og frágengið að það útiloki fólk þá finnst fólki það ekki vera velkomið. Háskóli er fyrir alla, hvernig væri nú að hanna umhverfið þannig að öllum finnist þeir velkomnir?“