Vilmundur Sigurðsson var búinn að glíma við mikil veikindi í meira en áratug. Slæmir verkir, mikil þreyta, vefjagigt, liðgigtareinkenni og kulnunareinkenni voru meðal annars það sem að Vilmundur upplifði. Frá þessu sagði hann í samtali við sunnlenska.is.
„Ástandið versnaði stöðugt og sumarið 2017 var ég svo slæmur af bólgum í líkama og höfði að ég var farinn að óttast að kafna í svefni eða að ég væri með einhverskonar krabbamein.“
Vilmundur var þó ekki orðinnn fimmtugur, en leið þó eins og gamalmenni. Þegar Vilmundur fór að skoða málið fann hann það sem hann telur hafa verið sökudólginn.
„Mig fór að gruna myglu og skoðaði það. Við vorum búin að flytja fjórum sinnum á nokkrum árum og á einum tímapunkti losuðum við okkur við alla búslóðina þegar við fluttum til Danmerkur árið 2010. Þannig að ég hugsaði: Hvað er það sem hefur fylgt mér allan þennan sjúkdómstíma? Svarið var rúmið. Minnissvamps dýnan og minnissvamps koddinn. Ég gúgglaði þessa dýnu og kodda og við mér blöstu amerískar hryllingssögur um fólk sem taldi sig hafa veikst frá minnissvampi í dýnum og koddum.“
„Það eina í stöðunni var að taka mark á þessu, eins illa farinn og ég var orðinn. Við losuðum okkur strax við koddana og heilsan varð betri á nokkrum dögum, svo fóru dýnurnar mánuði seinna og heilsan varð miklu betri,“
Vilmundur stofnaði í kjölfarið Facebook-hópinn Er rúmið mitt að drepa mig. Hópurinn var kominn með 4000 meðlimi á fáeinum dögum, en DV hefur fjallað um hann áður.
Ef að fólk finnur fyrir svipuðum kvillum og Vilmundur þá er hann með ráðleggingar fyrir það.
„Það fyrsta sem fólk ætti að gera er að skipta út koddanum og nota dúnkodda eða ullarkodda. Næst er að hindra útgufun mögulegra kemískra efna frá dýnunni. Best er að kaupa til dæmis húsgagna yfirbreiðsluplast í byggingavöruverslunum og klæða dýnuna alveg í plastið, brjóta það undir dýnuna og leggja svo teppi, hlífðarlak og lak ofaná, og sofa þannig í tvær til fjórar vikur og sjá hvort að heilsan breytist til batnaðar,“
Í dag flytur Vilmundur sjálfur inn dýnur, eftir að hafa reynt að fá eftirlitsaðila til að skipta sínum út.
„Ég sá það svo loksins fyrir einu ári, eftir árangurslausar tilraunir til að vekja eftirlitsaðila og söluaðila til vitundar um þetta, að eina lausnin væri að við hjónin og vinahjón okkar myndum hefja innflutning á heilnæmri svefnvöru,“ segir hann í viðtalinu við Sunnlenska.