fbpx
Mánudagur 15.september 2025
Fréttir

Guðlaugur: 4 milljóna vinningur það versta sem gat gerst – Ætlar alla leið og krefst hátt í 80 milljóna frá ríkinu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. nóvember 2019 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaugur Jakob Karlsson spilafíkill ætlar með mál sitt gegn ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og fer hann fram á hátt í 80 milljónir króna í skaða- og miskabætur. Morgunblaðið greinir frá málinu í dag en Guðlaugur hefur áður stigið fram og sagt frá spilafíkn sinni.

Mannréttindadómstóllinn hefur samþykkt að taka málið fyrir þó óvíst sé hvenær það verður. Guðlaugur stefnir ríkinu fyrir að hafa leyft Íslandsspilum og Happdrætti Háskóla Íslands að reka spilakassa.

Guðlaugur tapaði sambærilegu máli fyrir Hæstarétti árið 2017, en þar fór hann fram á tæpar 100 milljónir króna í skaða- og miskabætur. Taldi hann það vera nálægt þeirri upphæð sem hann hafði tapað í spilakössum í gegnum tíðina. Sjálfur kvaðst Guðlaugur eiga kvittanir fyrir 24 milljónum sem hann hafði sett í kassana. Í viðtali við Vísi á sínum tíma sagði hann það versta sem hefði komið fyrir sig á ævinni þegar hann vann rúmar 4 milljónir  í spilakassa.

„Versta sem fyrir mig kom var að vinna gullpottinn. 4,3 milljónir. Ég pantaði ferð til Kanarí fyrir mig og son minn, brottför mánuði eftir að fékk vinninginn. Ég þurfti að fá lánað fyrir gjaldeyri. Ég var búinn með vinninginn. Ég spilaði fyrir 750 þúsund daginn sem ég fékk þetta borgað út. Hætti snemma þann daginn. Þetta er brjálæði,“ sagði hann við Vísi en gullpottinn vann hann árið 2009.

Í frétt Morgunblaðsins í dag er vísað í greinargerð með stefnu Guðlaugs þar sem segir að spilakassarnir hafi svipt hann frelsinu eins og það er orðað. „Þeir koma fyrir sem saklausir og litríkir „söfnunarkassar“ eða „peningahappdrættisvélar“ líkt og Íslandsspil, HHÍ og íslenska ríkið af einlægu sakleysi kölluðu þessar miskunnarlausu vélar á Alþingi. Það er engin skynsemi í því að leyfa þessum vægðarlausu spilakössum að halda áfram að leggja líf fólks í rúst,“ segir í greinargerðinni sem Morgunblaðið vitnar til.

Í viðtalinu við Vísi á sínum tíma sagði hann það meiri skömm að stíga fram sem spilafíkill en að stíga fram sem kókaínfíkill eða alkóhólisti. „Og það að hið opinbera skuli nota þetta til fjáröflunar er algerlega út úr korti, stenst ekki nokkra skoðun.“

Sagði Guðlaugur jafnframt að margt útigangsfólk séu langt leiddir spilafíklar.

„Rónarnir niður í bæ, ég þekki þá persónulega, sem hafa komið fram í viðtölum um áfengisvanda sinn… þeirra vandi er fyrst og fremst spilamennskan. Ekki vímuefnaneyslan. Þeir deyfa sársaukann með áfengi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Miðflokkurinn vill leita að olíu og gasi – Beri það árangur sé hægt að útrýma verðtryggingunni

Miðflokkurinn vill leita að olíu og gasi – Beri það árangur sé hægt að útrýma verðtryggingunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kvörtunum vegna Reykjavíkurflugvallar hefur fjölgað hratt – Umsókn um nýtt starfsleyfi verið meira en ár í vinnslu

Kvörtunum vegna Reykjavíkurflugvallar hefur fjölgað hratt – Umsókn um nýtt starfsleyfi verið meira en ár í vinnslu