Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú þriggja hrotta sem réðust grimmilega að þremur dyravörðum í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Þeir eru sagðir hafa sparkað ítrekað í höfuð eins þeirra. Hrottarnir brutu jafnframt glas á höfði annars. Einn dyravarðanna þurfti að flytja með forgangi á slysadeild.
RÚV greinir frá þessu. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við RÚV að þetta hafi gerst þegar dyraverðir hugðust vísa mönnunum út af staðnum.
„Þeir höfðu verið með óspektir þarna innandyra og þeir veitast að þremur dyravörðum. Byrja á að slá einn niður og sparka síðan tveimur til þremur höggum í höfuðið á honum. Og síðan ráðast þeir á annan dyravörð með glasi, lemja hann í höfuðið þannig að glasið brotnar og hann fær stóran skurð á höfuðið. Síðan gera þeir þriðja dyravörðinn óvígan líka með því að slá hann niður,“ segir Guðmundur Páll og bætir við: „Jú, þetta er fólskuleg áras. Mjög svo.“
Þegar lögregla kom á vettvang voru mennirnir farnir. Lögregla leitar nú mannanna og við það notast hún við upptökur úr öryggismyndavélum, auk þess sem vitni sem náði atburðunum á mynd hefur gefið sig fram. „Já við erum að vinna í því að finna þá sem fyrst,“ segir Guðmundur Páll.