Flokkur fólksins mælist með meira fylgi en stjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð. Mælist Flokkur fólksins með 6,1% fylgi á meðan Viðreisn mælist með 4,7% fylgi og Björt framtíð með 2,4% fylgi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunnar MMR um fylgi stjórnmálaflokka. Hvorugur stjórnarflokkurinn næði manni inn á þing ef kosið yrði í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr með mest fylgi íslenskra flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 29,3% sem er eins prósentustiga aukning frá síðustu könnun MMR. Fylgi Vinstri grænna lækkaði milli mælinga og mælist nú 20,4% en fylgi Pírata stendur í stað í 13,3%. Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 10,6% en mældist 9,1% í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins dalar örlítið, mældist nú 9,6% en mældist 10,2% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist 3,6% samanlagt. Flokkur fólksins er hástökkvari könnunarinnar, mælist flokkurinn nú með 6,1% fylgi en mældist með 2,8% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar dregst saman milli kannanna, í síðustu könnun mældist fylgi Viðreisnar 5,3% en 4,7% nú. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist nú 2,4% og mældist 3,3% í síðustu könnun. Þrátt fyrir dalandi fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar styðja fleiri ríkisstjórnina nú en í síðustu könnun. Kváðust 34,1% styðja ríkisstjórnina samanborið við 33,9% í síðustu könnun.
Könnunin var gerð dagana 18. til 21. júlí 2017, spurðir voru 909 einstaklingar, 18 ára og eldri.