„Fyrir réttum tíu árum lenti ég í bílslysi og slasaðist mjög illa. Var ég á gjörgæslu í nokkra daga, hálfan mánuð á bæklunardeild og á annan mánuð í endurhæfingu á Grensásdeild. Þegar ég svo komst ég í endurhæfingu á Reykjalundi kom að því sem mestu réði um hve vel mér hefur gengið að rétta mig við eftir þetta áfall.“
Þetta segir Ámundi Loftsson, fyrrverandi sjómaður og bóndi, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Mikil ólga hefur ríkt á Reykjalundi undanfarnar vikur og hafa tíu læknar sagt upp störfum þar frá því í sumar. Snýr óánægjan einkum að afskiptum SÍBS að rekstri Reykjalundar.
Ámundi má ekki til þess hugsa að starfsemi Reykjalundar skerðist eða hreinlega leggist af. Hann lýsir reynslu sinni af endurhæfingarmiðstöðinni í umræddri blaðagrein í Morgunblaðinu í dag og segist eiga Reykjalundi margt að þakka. Eftir slysið fyrir tíu árum fór hann í endurhæfingu á Reykjalundi, en áður hafði hann dvalið á bæklunardeild og á Grensásdeild.
„Þar [Á Reykjalundi] tók við líkamsrækt, innanhúss og utan, vinnuþjálfun og ýmis fræðsla um það sem miklu ræður um almennt heilsufar. Eftir vistina á Reykjalundi tók svo við útivist og fjallgöngur, sem ekki hefði orðið nema vegna veru minnar þar. Starfsemi Reykjalundar hefur vakið eftirtekt og aflað sér virðingar víða um lönd. Því varð ég vitni að meðan á dvöl minni þar stóð,“ segir Ámundi í greininni.
Hann nefnir að erlendir gestir hafi lýst undrun þegar þeir heimsóttu Reykjalund og hrifning á starfinu hafi ekki leynt sér.
„Þeir verða líka seint upptaldir sem eiga endurhæfingarstarfinu á Reykjalundi endurheimt heilsu sinnar og lífsgæða mikið að þakka. Því eru öll rök fyrir því að halda áfram og efla starfsemi Reykjalundar og umhugsunarvert hvort tryggingafélögin í landinu ættu ekki að setja fé í rekstur þessarar stofnunar. Jafnvel mætti líka áskilja að þeir sem lenda í slysum fari í endurhæfingu á slíka stofnun, sem skila myndi bæði þeim sjálfum og þjóðfélaginu öllu margföldum ávinningi.“
Ámundi segir mikilvægt að þeim ófriði sem nú er uppi á Reykjalundi verði að linna. Annað væri hreinlega stórslys.
„Það væri sögulegt slys og stórtjón fyrir þjóðfélagið ef þessi starfsemi legðist af. Þess vegna verða allir sem í hlut eiga að vinna að því eina sem öllu varðar, sem er að setja niður deilur og tryggja að það góða starf sem þar er unnið haldi áfram – og eflist.“