Engin klósett og hvetja ferðamenn til að lifa af landinu
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason gagnrýnir í færslu á Eyjunni svokallaða „campers“, sendiferðabíla sem eru leigðir til ferðamanna. „Á netinu má sjá að mikið framboð er af svona bifreiðum. Maður sér þessum bílum lagt að kvöldlagi víða í borgina og stundum fólk í kring sem lætur nánast eins og þetta séu heimili. Oft hef ég séð þessa bíla í stæði við Hallgrímskirkju,” segir Egill.
Hann bendir á að eðli máls samkvæmt þá séu engin klósett í þessum sendibílum og það kunni að skýra að hluta fjölda frétta af ferðamönnum sem hægja sér úti um hvippinn og hvappinn. „Bílarnir eru ekki með klósettum, þeir eru alltof litlir til þess. Þetta eru ferðamenn sem ætla að spara svo mikið að þeir tíma ekki einu sinni að fara á tjaldstæði – og um leið spara þeir að kaupa sér aðgengi að salerni sem er að finna á hótelum og á tjaldstæðum.
„Það voru túristar úr svona bíl sem kúkuðu í Hallargarðinn um daginn. Það er aldeilis staðurinn til þess. Í garðinum eru oft börn að leik. Í því tilfelli er varla hægt að kenna ríkisstjórninni um,“ skrifar Egill og vísar til pistils Èric Lluent, katalónsk blaðamanns, sem telur að ríkisstjórnin þurfi að reisa fleiri klósett fyrir ferðamenn.
Egill segir að í flestum löndum sé ekki mikið um almenningssalerni. „Ég hef ferðast víða um heim og minnist þess raunar ekki að almenningsklósett séu út um allt. Stundum vill líka brenna við að þau séu fjarskalega ógeðsleg. Oft er fólk að laumast inn á veitingastaði til ganga örna sinna – þá þykir kurteisi að kaupa að minnsta kosti einn kaffibolla,“ skrifar Egill.
Eitt af þeim fyrirtækjum sem leigir út sendiferðabíla til ferðamanna er Kúkú Campers og segir Egill það réttnefni. Fyrirtækið er jafnframt harðlega gagnrýnt innan Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar.
Á heimasíðu þess fyrirtækis eru auglýst sérstök kort af Íslandi og þó lýsing þeirra hafi yfir sér blæ kímni þá er ekki hægt að segja annað en eitt þeirra sé vandræðalegt eftir að fréttir bárust af ferðamönnum sem murkuðu lífið úr lambi.
Þar eru ferðamenn hvattir til þess að lifa af landinu meðan þeir ferðast um Ísland og er sagt að það sé öllum heimilt að borða hvað sem er svo lengi sem það sé á landi ríkisins. „Við höfum skorað á marga okkar viðskiptavini að lifa af náttúrunni í viku,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins.
Líkt og fyrr segir var Kúku campers gagnrýnt innan Baklands ferðaþjónustunnar. „Þeir kunna varla að skammast sín, en ættu að gera það,“ segir Ingólfur Arnarson. Kristín Hávarðsdóttir tekur undir og skrifar: „Þetta er algerlega með ólíkindum að þeir auglýsi svona lagað“. Einar Garðarsson er sammála þessu. „Þetta er alveg út í hött, engin furða að túristar séu að veiða sér í matinn ef þetta er það sem fyrir þeim er haft. Þetta þarf að fjarlægja hið fyrsta,“ skrifar Einar.
DV hafði samband við Viktor Ólason, framkvæmdastjóra Kúkú Campers, og segir hann að umræddur texti vísi í 27. grein náttúruverndarlaga sem kveði á um að á ríkisjörðum megi ferðamenn tína og hirða sér hvað eina til matar. Þar segir: „Í þjóðlendum er öllum heimilt að tína ber, sveppi, fjallagrös og jurtir og einnig skeldýr og söl, þang, þara og annan fjörugróður í fjörum.“
„Við erum hvergi að tala um að fólk eigi að veiða sér til matar,“ segir Viktor.