Atli Rafn vann mál sem hann höfðaði gegn Borgarleikhúsinu á dögunum. Vakti það mikla athygli og umræðu í samfélaginu en ekki voru allir sammála um ágæti dómsins.
Steinunn Ólína tjáði sig um málið í gær en þar fagnaði hún dómnum og gagnrýndi harðlega skrif Þórdísar Elvu um málið. Skrif Þórdísar bentu meðal annars bendir á að skaðabætur til handa þolendum kynferðisbrota hafi einatt verið lægri en þær skaðabætur sem Atla Rafni voru dæmdar. Steinunn sakaði jafnframt Þórdísi um að hafa markaðssett kynferðisofbeldi sem hún varð sjálf fyrir með bókarskrifum og fyrirlestrum.
„Þórdís Elva var áður sjálfskipaður brautryðjandi á Íslandi í afhjúpun ofbeldismanna að amerískri fyrirmynd og hvatti fórnarlömb til þess að stíga fram og segja frá í hópi sviðslistakvenna. Hún hafði gert slíkt sjálf og bætti um betur, því hún markaðssetti ofbeldi sem hún sagðist hafa orðið fyrir með eftirminnilegum hætti í bók, með fyrirlestrum þar sem henni fylgdi meintur ofbeldismaður um allar álfur og gekkst við því að kalla sig nauðgara til að styðja rétt hennar til að segja frá og mæta ofbeldismanni sínum. Verkið vakti mikla athygli.“
Steinunn sagðist einnig viðurkenna að hún hafi hreina andstyggð á „þeirri drottnunargirni og hefndarfýsn sem birtist í þessu niðurlægjandi og sjálfsupphefjandi verki Þórdísar Elvu,“ en ekki hafa allir verið sáttir með þessi skrif Steinunnar. Einn þeirra sem gagnrýnir skrif Steinunnar er fyrrverandi borgarfulltrúinn Halldór Auðar Svansson en hann tjáði sig um málið á Facebook síðu sinni í dag.
„Ég man það mjög vel þegar Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fór í uppgjörsferli með nauðgara sínum að sumum þótti þetta alveg forkastanlegt á þeim forsendum að hún væri að veita honum vettvang til að tjá sig, það væri of mikil gerendameðvirkni.
Nú er hins vegar komin fram sú skoðun að þetta sé alveg forkastanlegt á þeim forsendum að hún sé allt of hefnigjörn og stjórnlynd, að vera að þvinga ‘meintan ofbeldismann’ til að gangast við því að vera nauðgari, hún hafi verið of vond við hann.
Ég held að aðalvandamálið hérna sé að það þyki bara alveg forkastanlegt yfir höfuð að þolendur geri upp sín mál á sínum forsendum. Það er alltaf einhver sem finnst það of mikið eða of lítið svona eða hinsegin. Sú pæling að þolandi geti raunverulega tekið valdið til baka og að það megi bara er ennþá framandi.“