Undanfarið hafa sérkennilegir keðjustatusar verið áberandi á Facebook. Þar segist fólk til dæmis hafa pissað í buxurnar, það sé hætt að ganga í undirfötum, það ætli að flytja til Vermont eða fá sér apa. Ef einhver Facebook-vinur er svo heppinn (eða óheppinn?) að bregðast við færslunni hefur viðkomandi samband við vininn og segir honum að nú verði hann að birta samskonar status sjálfur. Leikurinn er sagður hafa það markmið að vekja athygli á brjóstakrabbameini. Erfitt er hins vegar að sjá í fljótu bragði hvernig það má vera.
Fjallað er um málið á vef Krabbameinsfélagsins og þar kemur fram að leikurinn tengist ekki á nokkurn hátt Krabbameinsfélaginu. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir:
„Satt að segja þá skiljum við ekki hvernig þessi leikur á að vekja athygli á brjóstakrabbameini því einungis þeir sem svara póstinum fá upplýsingar um að þetta eigi að snúast um brjóstakrabbamein. Það getur ýmislegt dúkkað upp í bleikum október án þess að við vitum um það, en sem betur fer er það yfirleitt eitthvað sem styður við málstaðinn.“
Krabbameinsfélagið leggur mikla áherslu á fræðslu og forvarnir en þessi leikur hefur ekkert með það starf að gera. Helga segir jafnframt:
„Við höfum ekki stjórn á því sem fólk gerir á samfélagsmiðlum, en það er ekki óalgengt að fólk tengi við átökin okkar og „teiki“ því átökin fá athygli í fjölmiðlum. Stundum eru þessir leikir þess eðlis að þeir gera gagn og fá fólk til að hugsa um ákveðna hluti, en í sumum tilfellum ekki. Við vonum að fólk fái einhverja skemmtun út úr þessu en sjáum ekki hvernig þetta geti verið ætlað til að vekja athygli á brjóstakrabbameini. Þetta tengist okkur sannarlega ekki.“