Í pistlinum sakar hann Íslandsbanka um dyggðamont (e. virtue signaling) og segir að bankanum væri nær að lækka vexti og gjöld kvenna og karla en að hlutast til um kynjahlutföll á ritstjórnum og í viðmælendahópi fjölmiðla. Sigmundur opnar pistilinn með dæmi um svokallaðan „rétttrúnaðarrekstur“ en dæmið kemur frá breska vefsvæðinu Mumsnet. Ugla segir að á þessu vefsvæði sé að finna sum af grófustu dæmunum af fordómum og níði í garð trans fólks.
Pistill Sigmundar fjallaði um meinta tilhneigingu fyrirtækja og markaðsfólks til að fylgja meintum pólitískum réttrúnaði. Hann veltir því fyrir sér hvað valdi þessari þróun:
„Ýmsar kenningar eru uppi um hvað veldur. Sumir benda á að stjórnendur stórfyrirtækja, auglýsingastofa o.fl. myndi samkvæmisklúbb sem er ekki í tengslum við restina af samfélaginu. Aðrir telja þetta afleiðingu af auknum áhrifum fólks sem er nýkomið úr innrætingarumhverfinu sem tröllríður mörgum háskólum. Sumt markaðsfólk telji ekki nógu merkilegt að selja bara vörur og vilji því vinna að öðrum markmiðum í krafti stöðu sinnar.“
Sigmundur opnaði pistilinn með dæminu af vefsíðunni Mumsnet. Dæmið fjallar um smjörlíkisframleiðandann Flora sem ákvað að standa með Trans fólki og hætta að auglýsa á síðunni vegna þeirra grófu ummæla sem þar var að finnast. Sigmundur vill meina að með þessu útspili Flora hafi fyrirtækið misst þúsunddir viðskiptavina til að halda í einn.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Ísland, gagnrýnir pistil Sigmundar harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segist hún ekki vera mikið í því að deila bloggfærslum en hún gat ekki látið þessa færslu kyrrt liggja. Henni finnst mikilvægt að staldra aðeins við og velta því upp sem Sigmundur segir í pistlinum.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þú vitnar í umræðuna í Bretlandi um trans málefni í þínum málflutningi, en þú nefndir hana einnig í umræðum um lög um kynrænt sjálfræði. Þar drógst þú í efa í efa mikilvægi þessa frumvarps og óskaðir jafnframt eftir sambærilegri umræðu á Íslandi um hin ýmsu mál tengt því.
Hún segir að á ákveðnu spjallborði á Mumsnet megi finna „ein skýrustu og grófustu dæmi um fordóma og níð gegn trans fólki á opinberum vettvangi“.
„Á spjallborðinu má finna ótal þræði þar sem ráðist er að persónu, starfi og lífi fólks sem er trans, þar á meðal mín og maka míns. Á spjallborðinu er ítrekað deilt greinum eða viðtölum sem ég hef verið í, þar sem gert er lítið úr mér, útliti mínu og mér gert upp allskyns óhugnað. Trans fólk er kallað ofbeldisfólk, barnaníðingar og miskynjað í gríð og erg og gert lítið úr þeirra kynvitund. Það sama er gert við nánast hverja einustu trans manneskju sem hefur komið fram opinberlega og má með sanni segja að spjallborðið sé gróðrastía fordóma, rangsanndinda, eineltis og viðbjóðs.
Í pistlinum kemur þú inn á umræður sem eiga sér þar stað um „hvort eðlilegt væri að karlar sem skilgreina sig sem konur fengju aðgang að búningsklefum kvenna“. Slíkar umræður geta ekki talist annað en misvísandi afvegaleiðing á aðgengi að búningsklefum. Trans konur eru ekki „karlmenn sem skilgreina sig sem konur“, heldur eru trans konur einfaldlega konur.
Að því sögðu ættu þær væntanlega að fá aðgengi að sömu aðstöðu og aðrar konur – ekki nema að þú sért á sömu skoðun og fólk á þessu spjallborði sem líta á mig sem ofbeldisfullan karlmann sem sé að troða mér inn í kvennarými í annarlegum tilgangi.
Samkvæmt þeim eigum ég og þú meira sameiginlegt út frá kyni heldur en ég og aðrar konur, og held ég að við getum bæði verið sammála um að það er fáranleg röksemdarfærsla sem á við engin rök að styðjast. Ég held við getum verið sammála um það að það væri fáranlegt að ætlast til þess að ég eða aðrar konur noti karlaklefa, enda myndi slíkt bara einfaldlega ekki ganga upp.“
Uglu finnst það vera óábyrgt og illa til fundið hjá Sigmundi að segja að leikskólabörn séu „hvött til að efast um eigið kyn“. Hún segir slíkt orðalag ekki vera til neins gert nema að vekja ótta um að hér sé verið að reyna að gera börn trans.
„Engin er að „hvetja“ til neins, enda er ekki hægt að gera fólk trans, ekki frekar en hægt er að hvetja fólk til að verða samkynhneigt eða tvíkynhneigt. Umræðan um málefni trans barna og unglinga er full af djúpstæðum rangfærslum og ef að þú ert að fá þínar upplýsingar af mumsnet um þessi mál, þá vil ég biðla til þín að leita þér betri upplýsinga. Það eru ýmiss samtök sem vinna daglega með trans börnum og fjölskyldum þeirra, meðal annars á Íslandi.“
Hún segir það vera heldur djúpt í árina tekið að segja að smjörlíkisframleiðandinn Flora hafi misst þúsundir viðskiptavina í kjölfar ummæla sinna. Spjallborðið sem um er að ræða sé mjög lítill hluti þessarar stóru síðu.
„Ákvörðun Flora að hætta að auglýsa á síðunni var ákvörðun sem þau tóku eftir að vakin var athygli á þeirri djúpstæðu transfóbíu sem þrífst inn á þessu spjallborði á mumsnet. Að vilja ekki taka þátt í eða styðja við síðu sem leyfir slíku að viðgangast snýst ekkert um neinn rétttrúnað. Það snýst um að taka afstöðu gegn fordómum og grófu einelti í garð trans fólks.“
Uglu finnst það vera mikið áhyggjuefni að Sigmundur vísi til umræðunnar í Bretlandi um trans fólk en hún segir stöðu trans fólks þar fara versnandi.
„Í nýlegri rannsókn um hatursglæpi kom í ljós að hatursglæpir gagnvart trans fólki hafa aukist um 37% frá ári til árs, sem má rekja til fjandsamlegrar og misvísandi umræðu um trans fólk í Bretlandi. Umræðan þar í landi einkennist af fjandsemi, ótta og djúpstæðum fordómum gagnvart trans fólki, þar sem misvísandi upplýsingar og áróður er viðhafður í fjölmiðlum án gagnrýni. Ég ætla rétt að vona að við á Íslandi tökum slíka umræðu okkur ekki til fyrirmyndar, enda myndi það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir trans fólk sem og annað fólk hérlendis.“
Ugla segist að lokum vilja taka undir niðurlagið í pistli Sigmundar en þar skrifar hann að „það ætti svo að vera almenn samfélagsleg skylda að gæta jafnræðis gagnvart öllum einstaklingum en skilgreina þá ekki út frá kyni, aldri eða öðrum einkennum sem okkur er úthlutað“.
„Því get ég svo sannarlega verið sammála og finnst mér miður að í upphaf virðist þú skilgreina trans fólk út frá því kyni sem þau fengu úthlutað við fæðingu, í stað þess að virða kynvitund þeirra að vettugi. Þú getur ekki neitað trans fólki því sama og þú krefst svo af öðrum í sama pistli.
Að gæta jafnréttis í hvítvetna er einmitt að taka mið af þessu og sjá til þess að fólk lifi ekki við misrétti og við sem samfélag spornum við gildum og viðhorfum sem gera á okkar hlut út frá þessum breytum. Þess vegna finnst mér það frábært mál að fyrirtæki séu að taka meira mið af jafnréttismálum og virkilega velta fyrir sér hvernig þau geta orðið jafnréttisbaráttunni að liði.“
Ugla endar á því að bjóða Sigmundi og öðru Miðflokksfólki að kíkja í kaffi til Trans Íslands.
„Við erum alltaf til í að ræða trans málefni út frá málefnalegum grundvelli og fara yfir þau mál sem þér finnst að þurfi að ræða. Ég vil síðar að þú nálgist þínar upplýsingar á varhugaverðum spjallborðum á internetinu, enda auðvelt að detta í gryfju óupplýstar umræðu þegar um er að ræða einn fordómafullasta vettvang Bretlands um trans málefni.“