Tæplega þrjátíu manns höfðu leitað á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi um hádegið í dag vegna hálkuslysa. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Landspítala.
Þar segir að um þriðjungur fólksins hafði lent í umferðarslysum, en aðrir voru gangandi vegfarendur sem lentu í óhappi.
„Þetta er fyrsti alvöru hálkudagurinn í Reykjavíkurborg á þessum vetri. Landspítali hefur þurft að kalla út starfsfólk aukalega til þess að reyna koma í veg fyrir að bið vegna hálkuslysa verði of löng. Biðtíminn er þó talsverður,“ segir í færslunni.
Landspítali vill minna fólk með minni veikindi eða líkamstjón að leita alltaf fyrst til sinnar heilsugæslu eða Læknavaktarinnar í Austurveri, ef kostur er. Þeir aðilar sinna fólki og greina – og vísa síðan til Landspítala, ef þörf krefur.
„Á bráðamóttöku Landspítala er sjúklingum jafnan forgangsraðað eftir bráðleika vegna álags og aðflæðis. Við slíkar aðstæður á Landspítala getur fólk sem er ekki í bráðri þörf þurft að bíða lengi eftir þjónustu eða verið vísað á heilsugæslustöðvar eða Læknavaktina í Austurveri,“ segir enn fremur.
Þá er bent á þjónustu heilsugæslustöðvanna sem eru nítján á höfuðborgarsvæðinu. „Þær eru flestar opnar kl. 8-16 og allar með síðdegisvakt að minnsta kosti frá kl. 16-17, mánudaga til fimmtudaga. Margar stöðvar eru jafnframt með vakt til kl. 18 á virkum dögum. Nánari upplýsingar um opnunartíma er að finna á vef hverrar heilsugæslustöðvar.
Færslu Landspítalans má sjá hér að neðan: