„22/22. ágúst lá ég dauður á gólfinu heima hjá vini mínum, kominn niður í 60 kíló og kinnfiskasoginn vegna mikillar neyslu sem ég var í,” skrifar Birgir Jónsson, ungur maður sem fer yfir sögu sína í áhrifamiklum pistli á Facebook. Hann segist hafa verið fullur af sjálfshratri og með mikla sjálfseyðingarhvöt og þráði ekkert heitara en að deyja.
„Ég var búinn að berjast í allt of mörg ár við fíkniefnadjöfulinn og spilar rússneska rúllettu við lífið sem ég auðvitað tapaði,” segir Birgir.
Viku síðar vaknaði Birgir á gjörgæsludeild þar sem honum var haldið í öndunarvél. Hann var með samfallin lungu, skemmdan lungnavef, mikla stækkun á hjarta og nýrun voru illa farin.
Birgir þakkar fyrir að í kjölfar þessara atburða var hann sviptur sjálfræði í 70 klukkustundir. Eftir sjúkrahúsvistina fóru móðir hans og frænka hans með hann heim og hlúðu að honum. Þar var hann mjög veikur af lungnabólgu. Birgir segir að á þessum tímapunkti hafi fjölskylda hans gefið honum lífsviljann aftur. Innst inni vildi Birgir eitthvað annað en líf í neyslu en hann var orðinn svo illa farinn að hann vildi bara deyja.
Birgir kom um skeið að lokuðum dyrum í meðferðarkerfinu en móðir hans barðist fyrir því að hann fengi inni. Komast hann í meðferð á Vogi og vonast hann eftir plássi á Krýsuvík fljótlega.
Birgir hefur nú verið frá neyslu í tvo mánuði og horfir fram á bjartari tíma. Hann vill gera allt sem hann getur til að upplifa þetta ekki aftur og reyna að hjálpa öðrum til að forðast að lenda í þessum vítahring. „Ég á að baki 17 ár í neyslu, fangelsi og geðveikrahæli – nokkuð sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini.“
Birgir segist verða var við fordóma gegn fíklum í heilbrigðiskerfinu en bendir á að fíkn sé sjúkdómur – sjúkdómur sem allt of margir deyi af.
Að lokum þakkar hann móður sinni, frænku og öðrum ástvinum stuðninginn, hann á þeim lífið að þakka.
Meðfylgjandi eru myndir af Birgi í sjúkrarúminu og svo núna í október, í edrúmennskunni. Fyrir neðan er tengill á færsluna hans. Þetta er áhrifamikil frásögn þó að textinn sé hrár og beri þess merki að Birgir er með skrifblindu. Það er eitt af mörgum verkefnum sem bíða hans í þeirri vegferð að byggja upp nýtt líf í edrúmennsku.