fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Gísli Marteinn gagnrýndur fyrir brandara um meint afbrot Gísla Pálma – Bað Þórdísi afsökunar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 26. október 2019 12:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Marteinn Baldursson henti gaman að fréttum um meint innbrot og þjófnað rapparans Gísla Pálma í þætti sínum Vikan með Gísla Marteini á RÚV í gærkvöld. Gísli Marteinn fór þar yfir fréttir vikunnar og sagði um mál Gísla Pálma:

„Rapparinn Gísli Pálmi var í vikunni sakaður um að hafa brotist inn í íbúð í Árbæ og stolið þaðan lyfjum og skólatösku. Ásakanirnar komu flatt upp á Gísla sem spurði á Facebook-síðu sinni: „Má ekkert lengur?“ Gísli Pálmi er auðvitað frumkvöðull í íslensku rappi og hér má segja að hann hafi brotið enn eitt blaðið með því að blanda saman tveimur ólíkum stefnum, hinu ameríska gangsterarappi  og hinu ástsæla íslenska rappskólarappi.“

Þórdísi Árnadóttur sem sakaði Gísla Pálma opinberlega um innbrotið var mjög misboðið yfir þessu gríni Gísla Marteins. Dóttir Þórdísar var gestkomandi í húsinu þar sem innbrotið átti sér stað. Var skólatöskunni hennar og tölvu stolið en í tölvunni eru mikilvæg skólaverkefni, t.d. ritgerðir. Innbrotið – en ekki er skjalfest að Gísli Pálmi hafi verið að verki – þó að hann virðist játa því í hæðnisfullri Facebook-færslu sinni og fréttir um innbrotið hafi ekki verið bornar til baka – vakti mikinn óhug hjá fjölskyldunni sem þarna býr en það átti sér stað þegar heimilisfólk var í bíó.  Fólkið kom síðan til baka að brotinni útihurð, allt á rúi og stúi innandyra og mikilvægum persónulegum munum og nauðsynjum hafði verið stolið, þar á meðal lyfjum.

Þórdís segir í samtali við DV að hún hafi reiðst mjög yfir efnistökum Gísla Marteins hér. Tjáði hún þá reiði sína á Facebook í gærkvöld. Gísli Marteinn svaraði einkaskilaboðum hennar og baðst afsökunar. Segist Þórdís kunna afar vel að meta þau viðbrögð. Segir hún Gísla Martein hafa verið kurteisan og almennilegan.

Hún varar hins vegar við því að afbrotamenn séu upphafnir eins og hún telur að Gísli Marteinn hafði gert varðandi Gísla Pálma í gærkvöld:

„Gísli Pálmi hefur aðallega fengið athygli út á dópneyslu sína og fyrir að vera Hagkaupsfjölskyldumeðlimur. Það er óþarfi af fjölmiðlum að „upphefja“ hann með þessu máli sem nú er í gangi. Lögreglan er með þetta hörmungarmál til rannsóknar og þarf frið til að vinna það og við þurfum frið til að tækla þetta áfall.
Innbrot og þjófnaður á persónulegum eigum er mesta innrás á sálarlíf og einkalíf fólks.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt