Sveinn Hjörtur Guðfinnsson markþjálfi hafði samband við DV og vakti athygli á, að hans mati, óviðunandi tómlæti lögreglu gagnvart ósjálfbjarga utangarðsmanni sem þurfti aðstoð. Atvikið átti sér stað í gær. Maðurinn var staddur í Mjóddinni og þurfti augljóslega á aðstoð að halda, segir Sveinn. Mat lögreglu var hins vegar að láta hann afskiptalausun. Sveinn segist velta því fyrir sér hvort þetta sé orðin viðtekin afgreiðsla á neyð heimilislausra.
Maðurinn var í fötum frá Landspítalanum og með merki sjúklings. Hann hafði misst þvag og var allur í sárum á andliti og á höndum, að sögn Sveins.
„Þetta er mikið veikur maður sem lögreglan þekkir vel til,“ segir Sveinn Hjörtur við DV en hann skrifaði eftirfarandi um málið á Facebook-síðu sína:
„ERU HEIMILISLAUSIR HUNSAÐIR?
Ég er afar ósáttur við afgreiðslu lögreglunnar í Reykjavík á máli sem viðkemur ofurölvi utangarðsmann sem þurfti aðstoð í Mjóddinni nú í dag. Mat lögreglunnar var að sinna ekki manninum sem augljóslega hefði átt að fá aðstoð strax með ferð í gistiskýlið eða fangageymslur. Hann var fótalúinn og þurfti stuðning, hrakinn og veikur.
Ég velti því fyrir mér hvert við séum komin með þessa afgreiðslu og aðstoð við heimilislausa? Vissulega mikið álag á lögreglunni, en að bjóða uppá svona afgreiðslu er til skammar að mínu mati. Eru heimilislausir afskiptir með öllu? Erum við að gleyma okkar minnsta bróður? Eru heimilislausir hunsaðir?
Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sýndi skoðun minni skilning en sögðu að mat þeirra er fóru í útkallið hafi verið – að gera ekkert!
Ég trúi því að þetta hafi verið mistök og að lögreglan sé ekki búin að týna mannlegri tengingu og mikilvægi þess sem ég ólst upp við – árverkni í mannlegum kærleika!
Það kemur óneitanlega upp í huga minn starf föður míns heitins lögreglumanns sem sinnti þessum þætti mannlífsins og verkum lögreglunnar. Það var þá, en er þetta svona í dag?“
Varðstjóri í lögreglunni er ósáttur við skrif Sveins og segir:
„Það er sorglegt að sjá vandaða menn og málefnalega leggjast svona lágt. Hvað veist þú hvað á undan er gengið… Hvað búið er að gera til að koma þessum tiltekna aðila til hjálpar… hverjar aðstæður lögreglu eru á þessum tímapunkti. Á stór-höfuðborgarsvæðinu er einn bíll tiltækur, með ahöfn, sem getur tekið flutning á aðila sem ekki er fólksbílafær… er opið í gistiskýlinu.. er laus klefi á lögreglustöðinni… eru kannski framkvæmdir í gangi þar sem gera það að verkum að það eru ekki til klefar. Er þetta vandamál sem heyrir undir lögreglu ? Hvar eru úrræði sveitarfélaganna… ? Hvar eru félagslegu úrræðin… afhverju er ekki kallað eftir sjukrabíl ef fólki er hætta búin af þvi það er á götunni… var sjúkralið búið að skoða þennan aðila…á hann sögu um veikindi…eða kannski uppgerð veikindi, það þekkist líka, því miður.“
Þessu svaraði Sveinn: „Byrjum á byrjuninni. Maðurinn var í fötum frá Landsspitalanum, enn með merki sjúklings, sýndist hjartagátt. Hann hafði misst þvag. Allur í sárum í andliti og höndum. Maðurinn var með hækju í þokkabót og stóð ekki í fæturna. Mikið ölvaður. Hvað var á undan gengið með lögreglu veit ég ekki um, enda ekki mitt að vita um ástand er ég hringi inn. Ég hringi inn, tilkynni mat mitt á stöðunni. Ég tel mig hafa metið það rétt og FML var sammála, a.m.k sýndi skilning.
Þessi einstaklingur er örugglega í sífellri aðstoð, því miður. Því er örugglega mikið verið að sinna honum. Einn bíll fyrir borgina er glatað og ekki hægt að bjóða uppá.
Gistiskýlið opnar held ég kl. 17.00. Hvort pláss sé eða ekki veit ég ekki, en átti ekki að sinna honum? Voru geymslur fullar? Ekki hugmynd. En átti ekki að sinna honum?
Reykjavíkurborg hefur ekki enn sýnt þessum málaflokki fulla sýn. Þurfum ekki að ræða það. Að þetta sé verkefni lögreglu – nei… nema sérstök deild sem á að sinna þessum málum í samvinnu við borgina og lögreglu. Ég taldi að hann ætti ekki að fá sjukrabíl. Ég mat það svo. Að þér þyki ég leggjast lágt þykir mér leitt að heyra. Ég set aldrei fram neitt hér nema að standa undir því og taka gagnrýni sem kann að koma.
Að endingu; ég tel þetta hafa verið mistök lögreglumanna sem komu á vettvang. Kannski kom útkall sem var ástæða til að fara frá?
Amk var maðurinn á staðnum og fólk horfði uppá hann í sínu versta ástandi. Það er sárt ef lögreglan hefur ekki mannafla og bíl í verkefni.
Já, svo er ég líklega síðasti maðurinn sem hallmælir lögreglunni minn kæri. Það veistu. Hér fannst mér afgreiðsla málsins röng.“
Sveinn bætir því við að hann telji ótækt að aðeins einn lögreglubíll sé tiltækur til að sinna svona úkalli. Hann segir einnig ótækt að úrræði fyrir mikið veikt fólk séu ekki önnur en þau að husna það. „Á endanum deyr þetta fólk í umhverfi sínu. Álag á lögreglu er nóg og ljóst að inní svona vanda þurfa sveitafélög að koma ásamt ríkinu, samvinna við lögreglu og sjúkralið.“