Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, hefur fengið til meðferðar sex mál þar sem börn voru gerð út í vændi. Hún telur líklegt að slíkir glæpir séu framdir í dag og fari nú fram á netinu. RÚV greinir frá þessu.
„Þetta eru alls konar mál, og meðal annars mál þar sem fleiri en eitt barn voru með svo og svo mörgum mönnum í einu, og börn sem karlar veittu öðrum körlum aðgang að,“ segir Guðrún. „Allt þetta barnaklám sem verið er að fást við í dag, það er alþjóðlegt, og það væri of einfeldningslegt ef við héldum að við myndum sleppa.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill auka áherslu á rannsóknir á barnaníði á netinu. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við fréttastofu RÚV að lögregluna grunaði að dæmi væru um að Íslendingar hefðu pantað kynferðisbrot gegn börnum á netinu. Telur lögreglan einnig líklegt að Íslendingar hafi tekið þátt í slíku barnaníði. Guðrúnu segir ekki ósennilegt að myndefni af barnaníði sé líka framleitt hér á landi.
Í mörgum tilvikum fer ofbeldið fram í fjarlægum heimshlutum, en er framið samkvæmt fyrirmælum barnaníðinga á Vesturlöndum, og myndskeiðinu streymt til þeirra. Lögreglan telur sennilegt að Íslendingar hafi tekið þátt í slíku barnaníði. En talskonu Stígamóta þykir ekki ósennilegt að myndefni af barnaníði sé líka framleitt hér á landi.