Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna starfsmann embættisins sem var sendur í leyfi og fékk skriflega áminningu. Þetta var vegna kynferðislegrar áreitni í vinnu- og námsferð starfsmanna embættisins til Parísar í síðasta mánuði.
Í yfirlýsingu forseta segir að starfsmaðurinn hafi brotið gegn tveimur í ferðahópnum í opnu rými og stundað annað háttalag sem aldrei verður fallist á að afsaka megi á nokkurn hátt. Guðni segir að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða eftir heimkomu.
„Um leið og ég varð áskynja um það ólíðandi athæfi sem viðhaft var aflaði ég mér allra mögulegra upplýsinga, meðal annars með viðtölum við alla þá sem málið varðaði. Starfsmaðurinn fór í leyfi og forsetaritari veitti honum skriflega áminningu. Auk þess var starfsmanninum gert ljóst að ekki yrði látið þar við sitja,“ bætir hann við. Í framhaldinu hafi starfsmaðurinn beðist afsökunar og leitað sér sérfræðiaðstoðar.
„Þeir aðilar sem brotið var gegn ‒ ágætt samstarfsfólk mitt ‒ hafa í öllu ferlinu verið upplýstir um stöðu og þróun mála og hafa fallist á þær ákvarðanir sem teknar hafa verið, án þess auðvitað að þurfa að bera að nokkru leyti ábyrgð á brotum sem þeir þurftu að þola. Formlegu ferli málsins er þannig lokið með samþykki allra þeirra aðila sem málið varðar og starfsmanni var heimilað að snúa aftur til starfa að uppfylltum tilteknum skilyrðum.“