Guðmundur nokkur deilir innan Facebook-hóps íbúa Árbæjar myndbandi þar sem má sjá þrjá pilta teika strætisvagn. Piltarnir hanga aftan á bílnum í nokkra stund.
Guðmundur varar við þessu og segir þetta hættulegt: „Er nokkuð viss um að ef þessir drengir gerðu sér í hugarlund mögulegar afleiðingar af þessari iðju að þá held ég að þeir myndu vonandi hugsa sig tvisvar um að endurtaka leikinn,“ skrifar hann.
Þetta er þó hvergi nærri ný hegðun og líkt og kemur fram á Vísindavefnum: „Líklegast er að sögnin að teika, sem einungis er notuð um að hanga aftan í bifreið á ferð í snjó og hálku, eigi rætur að rekja til ensku sagnarinnar take ‘taka’ og að baki liggi til dæmis orðasambandið take a car, take a taxi sem yfirfært hefur verið á þessa iðju. Sögnin var þegar talsvert notuð á fimmta áratugnum, þegar minna var saltað og mokað en nú, og sömuleiðis nafnorðið teik, það að teika bíl. Þetta var hættulegur leikur og illa séður af ökumönnum.“