Maður var í morgun sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir alvarlega og hættulega líkamsárás. Aðfaranótt föstudagsins 2. febrúar árið 2018 réðst hann að manni á skemmtistaðnum Götubarinn við Hafnarstræti á Akureyri. Hann sló manninn með krepptum hnefa í andlitið þannig að hann féll í gólfið og þar sem hann lá í gólfinu sparkaði hann í andlit hans með þeim afleiðingum að þolandinn hlaut skurð á nefi, blóðnasir, sár á enni og hægri kinn, brot á framhlið hægri miðframtannar í efri gómi sem náði inn að tannbeini, brot í bitkanti hliðarframtannar í hægri hlið neðri góms, bólgu og eymsl í kjálka og eymsl á enni og í kringum hægri augntóft.
Hinn ákærði játaði sök samkvæmt ákæru, samþykkti bótakröfu upp á um 75.000 krónur og lýsti því yfir að hann iðrist verknaðarins. Að teknu tilliti til þessa var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.