Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar, sem Atli Helgason myrti árið 2000, segir Atli að ætti ekki að fá að starfa sem lögmaður.
Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar, sem Atli Helgason myrti árið 2000, segir að Atli hafi aldrei sýnt minnstu iðrun og eigi ekki að starfa sem lögmaður. Dóttir Atla tjáði sig í gær um mál föður síns en hún gagnrýndi að hann mætti ekki starfa sem lögmaður. „Íslenskt fangelsiskerfi á að vera betrunarvist.
Í hverju er betrunin fólgin þegar menn geta ekki starfað við það sem þeir hafa menntun til eftir afplánun?,“ skrifaði dóttir Atla. Atli var sakfelldur fyrir manndráp árið 2001 og því sviptur lögmannsréttindum.
Birgir Örn sagði í viðtali við Vísi í fyrra að uppreist æra Atla væri sem blaut tuska í andlitið. Þá sagði hann að Atli hafi aldrei haft samband við sig.
Birgir Örn segir að staðan sé sú sama nú.
„Nei, hann hefur aldrei nokkurn tímann haft samband síðan atburðirnir gerðust. Hann hefur aldrei sýnt iðrun. Aldrei séð hann og aldrei heyrt í honum. Betrunarvistunin hefur ekki skilað sér til hans. Það gefur augaleið,“ segir Birgir Örn.
Líkt og fyrr segir telur Birgir Örn að Atli eigi ekki að fá heimild til að starfa sem lögmaður.
„Ég get ekki séð að lögmannafélagið væri betur komið með hann innanborðs, mann sem er með hans dómgreind. Hann hefur sýnt það í gegnum tíðina. Mér finnst mjög eðlilegt að dómurinn standi og hann starfi ekki sem lögmaður. Ég sé ekki að hann eigi neitt erindi að fá heimild til að vera með lögmannsstofu,“ segir Birgir Örn.
Dóttir Atla tjáði sig á Facebook í gær þar sem hún gagnrýndi að Vísir hafi greint frá því að þrír lögmenn Versus lögmannsstofu hafa verið áminntir vegna eignarhalds Atla Helgasonar að lögmannsstofunni.
„Ef samfélagið vill sparka í liggjandi menn, þá getur það líka gert ráð fyrir því að borga hlut af sköttum sínum til að halda þeim sem lengst innan fangelsiskerfisins. En er peningunum best varið þannig ? Á ekki frekar að láta fyrrum fanga starfa við það sem þeir eru hæfir til og borga þannig til baka til samfélagsins með hærri sköttum?,“ skrifaði dóttir Atla.