„Það geta allir gert mistök. Upphaflega vildi minn umbjóðandi bara afsökunarbeiðni. Fyrir hana skipti öllu máli að viðurkennt væri að rangt hefði verið farið með og aðalatriðið var að mistökin væru viðurkennd,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður Rositu Yufan Zhang, eiganda veitingastaðarins Shanghai.
Í lok sumars 2017 birti RÚV frétt þess efnis að eigandi Shanghai á Akureyri væri grunaður um mansal, að mánaðarlaun starfsfólks á staðnum væru 30.000 krónur og fólkið lifði á matarafgöngum á staðnum. Sagt var að verkalýðsfélagið Iðja væri með málið til skoðunar og fulltrúar þess hefðu rætt við starfsfólk veitingastaðarins.
Aldrei hefur neitt komið fram sem sannar þessar ásakanir á Shanghai. Rosita krafðist þess að RÚV drægi fréttina til baka, bæðist afsökunar og viðurkenndi með áberandi hætti að fréttin væri röng. Ekki var orðið við því. Hefur hún því höfðað skaðabótamál á hendur RÚV og krefst 6 milljóna króna í bætur.
„Aðalmeðferð í héraði verður vonandi öðrum hvorum megin við áramótin en við erum búin að leggja fram vitnalista í málinu,“ segir Sævar.
Rosita hafði ekki tíma fyrir viðtal við DV þar sem hún er upptekin í ferð sem leiðsögumaður ferðahóps. Bað hún Sævar um að ræða við DV fyrir sig.
Rosita hefur tjáð Sævari að kínversk yfirvöld fylgist með máli hennar. „Ég tek fram að þetta hef ég bara eftir henni en hún hefur kvartað til kínverska sendiherrans og segir hún að fulltrúar í kínverska sendiráðinu fylgist með hennar málum og líti á þau sem dæmi um hvernig það sé fyrir manneskju frá Kína að stunda viðskipti að Íslandi,“ segir Sævar.
Að sögn Sævars hefur Rosita orðið fyrir miklu áreiti lögreglu og annarra yfirvalda eftir frétt RÚV um Shanghai á Akureyri. „Hún þarf að sæta því að það sé að koma til hennar lögregla og aðrir eftirlitsaðilar með fyrirspurnir. Það er mjög óheppilegt ef þú ert að reka veitingastað að þangað komi lögregla þegar hann er fullur af gestum og fari að spyrjast fyrir um starfsfólk. Þetta er mjög erfitt og íþyngjandi og það hefur aldrei komið neitt út úr þessum rannsóknum.“
Sævar segir enn fremur að heimildarmenn RÚV við vinnslu fréttarinnar hafi sumir dregið til baka eitthvað af fullyrðingum sem hafðar voru eftir þeim.
Hann segir enn fremur að málið hafi haft mikil og slæm áhrif á Rositu þó að hann viti ekki í þaula hvernig það hefur skaðað hana fjárhagslega. „Ég veit bara að þetta hefur reynt mikið á hana og hefur haft miklar fjárhagslegar afleiðingar.“
Rosita sinnir margvíslegum störfum, er í veitingarekstri, leiðsögumennsku og útflutningi, svo eitthvað sé nefnt. „Hún er bara mjög dugleg kona sem hefur búið hér á landi í 20 ár og er gift íslenskum manni. Hún er gott dæmi um útlendinga sem flestir vilja fá inn í landið, fólk sem stendur sig,“ segir Sævar.