„Eins og kannski margir vita hef ég einhverja reynslu af að starfa með eldra fólki og þeim sem þjást af þessum vanda og ég get alveg vitnað um það að hann er ærinn,“ sagði Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og þingmaður VG, í umræðum á Alþingi í gær.
Ágúst Ólafur Ólafsson er fyrsti flutningsmaður tillögu að þingsályktun um þunglyndi eldri borgara. Ágúst Ólafur mælti fyrir tillögunni á Alþingi í gær og benti á allt að 12 prósent eldri borgara hér á landi sýni einkenni þunglyndis. Hlutfallið væri helmingi hærra en almennt gerist hjá öðrum aldurshópum.
„Þetta er gríðarlegur fjöldi og þunglyndi eldri borgara er sérstakt vandamál,“ sagði Ágúst Ólafur.
Ólafur Þór, sem lauk meðal annars sérfræðinámi í öldrunarlækningum, sagði að umræðan væri gríðarlega mikilvæg.
„Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við víkjum okkur ekki undan því að tala um mál sem jafnvel geta verið óþægileg eða lítið „sexý“, sem svo er kallað — ég bið forseta afsökunar á þessari slettu. En það er einmitt þannig með mjög mörg mál er snúa að málefnum eldra fólks, að tilhneigingin er svolítið: Já, æ eigum við að vera að eyða tíma í að tala um þetta? En auðvitað eigum við að gera það. Þessi hópur á athygli okkar skylda nákvæmlega á sama hátt og aðrir þjóðfélagshópar og þess vegna er svo mikilvægt að flutningsmenn komi með þetta mál og beri það upp,“ sagði Ólafur Þór.
Ágúst Ólafur hefur lagt til að þunglyndi eldri borgara verði rannsakað og kannaðar verði leiðir hvernig draga megi úr þunglyndi hjá eldri borgurum. Í ræðu sinni á Alþingi í gær lagði Ágúst Ólafur til að málinu yrði vísað til velferðarnefndar.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að ágætt starf hafi verið unnið hér á landi í tengslum við þunglyndi. Geðvandamál eldri borgara væru lítið rannsökuð hér á landi og flutningsmenn tillögunnar vildu bæta úr því.