Fjárfestingarsjóðurinn Icelandic Travel Fund, sem er í eigu Hreiðars Más Sigurjónssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og eiginkonu hans Önnu Lísu Sigurjónsdóttur, hefur verið notaður til að halda utan um eignir hjónanna í ferðaþjónustu að því er Stundin heldur fram. Í gegnum félagið Hólmsver er sjóðurinn sagður eiga ýmsar þekktar eignir í ferðabransanum, til dæmis Hótel Búðir, Hótel Ion á Nesjavöllum og gistiheimili í Stykkishólmi.
Þetta kemur fram í grein í nýjasta tölublaði Stundarinnar en þar kemur fram að Sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir, sem er í eigu Arion banka, er við það að fara að slíta sjóðnum. Hjónin hafa átt fjárfestingarsjóðinn í Icelandic Travel Fund í gegnum félagið Vinson Capital S.á.r.l. í Lúxemborg samkvæmt heimildum Stundarinnar. Stærstur hluti eigna þess félags kemur frá félagi sem var í skattaskjólinu Tortólu. Fullyrt er í fréttinni að hjónin hafi getað í skugga þessa félags komið fé úr skattaskjólum Tortólu og inn í opinbert hagkerfi Evrópu og Evrópusambandsins.
Forsvarsmenn Stefnis vissu ekki hvaða fjárfestar væru á bak við þennan sjóð fyrr á árinu þegar Stundin leitaði eftir upplýsingum hjá þeim.