Allar stöðvar slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út eftir miðnætti í nótt vegna elds í íbúð í Jórufelli í Breiðholtinu. Samkvæmt varðstjóra var eldurinn á þriðju hæð byggingarinnar og teygðu logar sig út um glugga þegar slökkvilið kom á vettvang.
Stigagangurinn var rýmdur og héldu íbúar til í strætisvagni á meðan slökkvistörf stóðu yfir. Þá aðstoðaði Rauði krossinn íbúa íbúðarinnar sem kviknaði í að finna næturstað.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn og var aðgerðum lokið um klukkustund síðar þegar búið
var að reykræsta og tryggja að engar glæður leyndust í íbúðinni.
Fólk var í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði, en allir sluppu ómeiddir.