fbpx
Laugardagur 19.júlí 2025
Fréttir

Lögmaður Atla harðorður: „Hann á bara að kyngja því. Kyngja því að missa lífsviðurværið. Kyngja því að missa æruna“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 26. september 2019 15:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttir, leikhússtjóra Borgarleikhússins, var tekið í dóm skömmu eftir klukkan 13:00 í dag. Niðurstöðu er að vænta innan fjögurra vikna.

Fyrr í dag greindi DV frá aðilaskýrslum bæði Atla Rafns og Kristínar. En hvert er í reynd ágreiningsmál aðila?

Mynd: Eyþór Árnason

Atli Rafn segist hafa orðið fyrir fjárhagslegu og persónulegu tjóni vegna uppsagnar

Atli Rafn hefur farið fram á 10 milljón króna skaðabætur og 3 milljón króna miskabætur vegna meints tjóns sem sem brottvikning hans frá Borgarleikhúsinu hefur valdið honum. Ber hann því við að ekki hafi ferið fylgt lögbundnum ferli þegar kvartanir bárust á hendur honum um kynferðislega áreitni og ofbeldi heldur hafi frásagnir meintra þolenda og hagsmunir þeirra alfarið verið teknir yfir hans eigin hagsmuni auk þess sem honum hafi ekki gefist fullnægjandi á að svara fyrir ásakanirnar.

„Stefnandi í þessu máli, í þessum atvikum, er algjörlega réttlaus, hann á engan rétt,“ sagði lögmaður Atla við munnlegan málflutning þar sem hann hélt því fram að óeðlilegt væri að þeir sem lögðu fram ásakanir á hendur Atla hafi fengið að njóta vafans og á meðan Atli Rafn fékk ekki svo mikið sem tækifæri til að taka afstöðu til meinta saka. Hann fékk aðeins grófar ópersónugreinanlegar upplýsingar um eðli ásakananna en ekki nöfn á meintum fórnarlömbum hans eða nánari upplýsingar um hvar eða hvenær meint kynferðisbrot hefðu átt sér stað og ekki heldur lýsingu á í hverju brotin áttu að hafa falist.

Lögmaður hans sagði það eðlilega kröfu að dómari kvæði á um að svona háttsemi yrði ekki liðin:

„Að svona framkoma og vinnubrögð eins og stefnanda voru sýnd af hálfu stefndu eigi að hafa afleiðingar.“

Í gildi sé reglugerð nr. 1009/2015 sem kveði á um hvernig taka beri á ásökunum, líkt og í máli þessu, þegar þau komi upp á vinnustað. Þeim reglum hafi ekki verið fylgt.

„Reglurnar eiga að tryggja ákveðna málsmeðferð sem á að tryggja réttindi beggja aðila,“ sagði lögmaður og bætti við að þessu máli hefðu réttindi Atla Rafns að öllu leyti verið virt vettungi. Reglurnar geri meðal annar kröfu um að í slíkum séu báðum aðilum gefinn kostur á að koma sínum hliðum á framfæri:

„Rætt er við aðila sem veitt geta upplýsingar um málsatvik og aðila málsins í fleirtölu, þeir eru alltaf tveir. Það er eitthvað sem þarf ekki einu sinni að útskýra, meintur gerandi og meintur þolandi.“

Af viðbrögðum Kristínar hafi afstaða hennar verið skýr. Hún hafi greinilega ákveðið „Ég ætla að standa með öðrum aðilanum, mér er skítsama um hinn.“

Lögmaðurinn rifjaði upp að þegar málið kom upp í desember 2017 hafi ríkt mikil spenna í samfélaginu vegna MeToo-byltingarinnar. Í slíku andrúmslofti sé enn mikilvægara en áður að standa samt sem áður í lappirnar og virða ekki gildandi reglur að vettungi. „En í þessu máli féll Kristín á þessu prófi […]Þú ræður ekki og rekur fólk án þess að virða þær reglur sem samfélagið hefur sett.“

Svo spurði lögmaður dómara: „Hefur það einhverjar afleiðingar að reglunum sé ekki fylgt? Eru þessar reglur bara orð á blaði eða hafa þær eitthvað efnislegt gildi.“

Málið sé alveg einsdæmi þar sem ekki hafi verið farið af reglum við uppsögnina og uppsögnina megi meira að segja rekja til ásakana sem ekki er einu sinni vitað hvenær áttu sér stað, aðeins 1-2 af þessum sögum verði rakin til vinnustaðarins.

„Þetta er algjörlega glórulaus málsmeðferð“

Tjón Atla Rafns sé óumdeilt. Enginn vilji ráða leikara til vinnu sem hafi verið sakaður um jafn alvarleg brot og kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Hann hafi orðið af vinnu og í því felist fjárhagslegt tjón. Einnig hafi fjölmiðla umfjöllun verið virkilega óvægin. Lögmaður vísaði þar sérstaklega til umfjöllunar DV frá 19. desember 2017 undir fyrirsögninni : Atli Rafn rekinn viku fyrir frumsýningu. Atli Rafn glímir við kvíða- og áfallastreituröskun vegna málsins. Til stóð að sálfræðingur hans bæri vitni í málinu, sem var erlendis en átti að bera vitni símleiðis. Eftir tvær árangurslausar tilraunir til að ná í sálfræðinginn í síma var talið fullreynt að ná í hann. Álit hans á andlegu ástandi Atla Rafns lá þó fyrir í dómskjölum og vísaði lögmaður til þess.

Stefnandi er réttlaus, hann á bara að kyngja sögunni sem er sögð um hann.

„Hann á bara að kyngja því. Kyngja því að missa lífsviðurværið. Kyngja því að missa æruna.“

Í andvörum eftir máflutning Borgarleikhússins bætti lögmaður Atla Rafns við að það væri eitt að taka við ásökunum aðila sem vilja ekki að meintur gerandi fáu upplýsingar um nöfn þeirra, annað sé þegar slíkt er látið hafa afleiðingar á gerandann. Í þessu tilvik hefði verið hægt að taka við ásökunum kvennana og bjóða þeim aðstoð og sállfræðimeðfer en tilkynna þeim þó að til að hægt væri að beita Atla Rafn viðurlögum, svo sem brottrekstur, yrðu þær að stíga fram undir nafni og gefa honum kost á að segja sína hlið.

Mynd: Eyþór Árnason

Máttu segja Atla Rafni upp án þess að hafa ástæðu

Sjónarmið Borgarleikhússins voru þau að viðbrögð þeirra hafi verið þau einu réttu í stöðunni og ákvörðunin um að reka Atla Rafn hafi verið tekin eftir að hafa leitað faglegrar ráðgjafar lögmanns í vinnurétti, sérfræðingi mannauðsstjórnun, sálfræðings og Stígamóta. Auk þess sé reglan sú að þegar launamenn starfa á almennum vinnumarkaði þá sé ráðningarsamningur uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila að virtum ráðningarskilmálum og kjarasamningum. Slíkt hafi verið gert í þessu máli. Samningi Atla hafi ekki verið rift og honum greidd laun í uppsagnarfrest líkt og samningur hans gerði ráð fyrir. Þar að auki hafi Atli Rafn verið í launalausu leyfi frá Þjóðleikhúsinu og því ekki um eiginlegt tjón að ræða. Eins hafi enginn af fyrirsvarsmönnum Borgarleikhússins fullyrt eitt né neitt um sekt eða sakleysi Atla Rafns af þessum ásökununum, hvorki á fundum við Atla Rafn sjálfan eða á opinberum vettvangi. Uppsögnin hafi verið eina rétta lausnin í stöðunni til að tryggja öryggi og vellíðan á vinnustaðnum.

Lögmaður Atla talaði um tjón af völdum sögusagna, nafnlausra frásagna. Lögmaður leikhússins benti á að ekki væri um nafnlausar frásagnir að ræða þó svo Atli kynni ekki deili á ásakendum. Hver og einn sem bar fram ásökun hafi gert slíkt milliliðalaust við leikhússtjóra en nöfnin gefi Kristín ekki upp vegna trúnaðar- og þagnarskyldu þar sem meintir þolendur treysti sér ekki til að koma fram undir nafni. Ekki verði lögð sú skylda á starfsmenn að þeir geti ekki kvartað undan samstarfsmönnum nema nöfn þeirra verði gefin upp.

Ljóst sé að Atli Rafn þekki nafn á einum meintum þolenda útfrá málsatvikum þar sem hann þekkti sjálfa sig í Metoo sögu sem birtist í Stundinni. Lögmaður leikhússins benti á að viðbrögð Atla við því hafi verið með þeim hætti að eðlilegt megi teljast að meintir þolendur hans kæri sig ekki um að koma fram undir nafni.

„Þessi trúnaður markaði málinu ákveðin farveg“, sagði lögmaðurinn og bætti við að í ljósi þess að Atli hafi alltaf þverneitað að hafa nokkru sinni gert eitthvað á hlut annars einstaklings, þá hafi afstaða hans til sakargiftanna verið mjög ljós frá upphafi.

„Að segja stefnanda upp störfum. Almenna reglan á vinnumarkaði er sú sem allir þekkja að ráðningarsamningar eru uppsegjanlegir af beggja hálfu,“ lögmaður bætti við að það væri engin krafa gerð um að uppsagnir á almennum markaði séu rökstuddar sérstaklega eða byggðar á ástæðum. Um frelsi aðila samningsins sé þar um að ræða.“

Auk þess sé ljóst að það séu þolendur eineltis og kynferðislegrar áreitni sem áðurnefndri reglugerð sé ætlað að vernda og því fáist ekki séð að reglurnar neyði vinnuveitendur til að brjóta trúnað við þeirra sem leita til þeirra með viðkvæm mál. „Umbjóðandi minn getur ekki fallist á það að stefnandi, sem andlag þessara ásakana,  að það einhvern veginn geri það að verkum að staða hans verði slík að það megi ekki segja honum upp.“

Ákvörðun Kristínar um að segja Atla Rafni upp hafi ekki verið léttvæg og hafi verið tekin að vandlega hugsuðu máli.

„Í þessari afstöðu var ekki verið að segja að stefnandi hafi gerst sekur um einhverja tiltekna refsiverða háttsemi. Borgarleikhúsið hefur aldrei haft neitt uppi um neitt slíkt. Og það kom í raun fram á fyrsta fundi málsaðila, að í ákvörðun leikhússins fælist ekki afstaða til þess hvort hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um.“

Lögmaður vísaði einnig til þess að í málaflutningi Atla Rafns sé byggt á því að kynferðisleg áreitni byggi á hlutlægum grunni, ótengdum huglægri afstöðu þolenda. Slíkt fái ekki stoð í orðalagi reglugerðarinnar þar sem segir : Hvers kyns kynferðisleg áreitni sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður.

„Svo segir þarna í stefnunni  að í þessu felist að ekki sé hægt að taka afstöðu eða ákvarðanir á grundvelli einhliða frásagna af einstaklingsbundinni uppilfun.“ En í raun sá skipti upplifun þess sem verði fyrir áreitni eðlilega máli í málum sem þessum.

Að því öllu virtu taldi lögmaður Borgarleikhússins ófært fyrir dómara að komast að þeirri niðurstöðu að um uppsögn Atla Rafns hefði átt að fara með einhverjum öðrum hætti en gert var, aðeins vegna þess að hann hefði verið ásakaður um kynferðislega áreitni. Uppsögnin hafi verið í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning og það sé það sem mestu máli skiptir.

Varðandi óvæga fjölmiðlaumfjöllun benti lögmaður Borgarleikhússins á að Atli Rafn bæri sjálfur ábyrgð á henni að hluta til og engin þeirra hafi verið að frumkvæði eða til stuðlan Borgarleikhússins. Meðal annars hafi Atli sjálfur leikið dómskjölum málsins í fjölmiðla degi fyrir þingfestingu.

„Degi fyrir þingfestingu málsins á visi.is, og dómskjöl birt að hluta eða heils svo hann hefur sjálfur viðhaldið umræðu um málið. […]Leikhúsið vildi ekki tjá sig um málið.“

Eins þótti lögmanni undarlegt að Atli Rafn hafi ekki lagt fram skattaframtal til að sýna fram á meint tjón. Slíkt sé afar óvenjulegt. Hins vegar hafi Atli teflt fram bókara frá Krumma slf. sem er samlagsfélag sem hann notar til að halda utan um tekjur sínar sem sé líka athugavert.

Svipar til máls lektors gegn HR

Málið að nokkru leit sambærilegt máli Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors í verkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann höfðaði mál gegn fyrrum vinnuveitanda sínum eftir að honum var sagt upp störfum fyrir að hallmæla konum í Facebook hóp. Háskóli Reykjavíkur var sýkn af kröfum Kristins, en málinu mun ekki lokið þar sem Kristinn ætlar að áfrýja niðurstöðunni. Málsvörn Háskólans fólst að miklu í því að samningur aðila hefði verið á almennum vinnumarkaði og því bæri háskólanum ekki að hafa neina sérstaka ástæður fyrir uppsögn eða að þurfa rökstyðja hana sérstaklega.  Í dómi héraðsdóms segir:

Þótt á það verði fallist að stefnandi hafi notið rýmra tjáningarfrelsis en ella, sem þátttakandi í samfélagslegri umræðu í kjölfar svokallaðrar „#
MeToo-byltingar“, verður ekki fram hjá því litið að hann starfaði á almennum vinnumarkaði og gat því vænst þess að honum kynni hvenær sem er að verða sagt upp starfi sínu, að gættum uppsagnarfresti. Gat hann ekki haft réttmætar væntingar til þess að halda starfi sínu til loka starfsævi sinnar, óháð því hvernig vinnuveitandi hans mæti hann sem starfskraft, og þá ekki einungis á grundvelli fræðilegra starfa hans, heldur einnig sem samstarfsmann á vinnustað og áhrif hans á ímynd háskólans út á við.“
Í máli Kristins voru ummæli sem hann lét falla óumdeild. Því sker mál Atla Rafns sig frá að því leitinu til að ásakanirnar sem á hann hafa verið bornar hafa ekki verið sannaðar. Af niðurstöðu Héraðsdóms í máli Kristins skiptir þó veiga miklu atriði að um ráðningarsamband á almennum vinnumarkaði var að ræða og því HR nokkuð frjálst að segja upp starfsmönnum að eigin geðþótta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ósátt við rukkunaraðferð Bílastæðasjóðs: Sótti systur sína og var sektuð meðan hún beið

Ósátt við rukkunaraðferð Bílastæðasjóðs: Sótti systur sína og var sektuð meðan hún beið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans