„Ég vissi að þröngt væri um lögregluna þarna enda húsnæðið yfir 40 ára gamalt en ég vissi ekki að það væri svona slæmt,“ sagði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, í ræðu á Alþingi í gær undir dagskrárliðnum störf þingsins.
Allsherjar- og menntamálanefnd, sem Anna Kolbrún er fulltrúi í, heimsótti Akureyri á þriðjudag þar sem nefndarmenn heimsóttu meðal annars Verkmenntaskólann og Háskólann á Akureyri. En það var heimsóknin til lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem vakti athygli Önnu Kolbrúnar og það kom ekki til af góðu.
„Við hittum einnig lögregluna á Norðurlandi eystra og þar fer vissulega fram mjög mikilvæg vinna við afar erfiðar vinnuaðstæður, leyfi ég mér að segja, húsnæðið er löngu sprungið. Ég vissi að þröngt væri um lögregluna þarna enda húsnæðið yfir 40 ára gamalt en ég vissi ekki að það væri svona slæmt. Þetta er eiginlega dálítið sláandi. Til að mynda er einn sérsveitarmaður staðsettur á Akureyri og vinnurými hans er ofan í kjallara lögreglustöðvarinnar,“ sagði Anna Kolbrún á þingi í gær.
Hún benti á að liðsauki frá Reykjavík fari norður þegar á þarf að halda. Bregðast þurfi skjótt við og þá sé varla tími til að bíða eftir síðdegisflugvélinni.
„Sýslumaður vakti okkur einnig til umhugsunar og nefndi það dæmi að íbúar Langanesbyggðar þurfa að keyra alla leið til Húsavíkur til að sækja þá þjónustu sem við flokkum gjarnan undir nærþjónustu. Sýslumaður hafði einnig orð á því að hann hefði ekki séð í fjöldamörg ár svona marga þingmenn koma til sín og sýna starfi hans áhuga.“