

Luke Matheson, 16 ára leikmaður Rochdale á Englandi, var í draumlandi í gær. Hann skoraði gegn Manchester United á Old Trafford í enska deildarbikarnum.
Fyrir tólf mánuðum, þá 15 ára gamall, varð Matheson yngsti leikmaður í sögu Rochdale. ,,Þetta hefur alltaf gerst svo hratt,“ sagði Matheson eftir markið á Old Trafford. Manchester United vann nauman sigur í vítaspyrnukeppni.
Leikurinn var sérstakur fyrir margar sakir hjá Matheson, móðir hans var mætt á leik í fyrsta sinn í fimm ár. Hún hefur glímt við erfið veikindi.
,,Hvað get ég sagt? Ég átti aldrei von á því að skora á Old Trafford, 16 ára gamall. Þetta er draumur að rætast. Mig vanta orð til að lýsa þessu, þetta var sérstakt kvöld fyrir mig og liðið.“
,,Þetta var fyrsti leikur mömmu minnar í fimm ár, hún hefur glímt við veikindi. Þetta mark er fyrir hana, hún var hérna að horfa.“
Matheson er nemi í sálfræði og hann fær ekki að vera stjarna lengi, hann er mættur í próf í dag. ,,Það er frí hjá leikmönnum á morgun, en ég þarf að fara í skólann. Það er próf í sálfræði.“
,,Þetta var magnað kvöld en ég þarf að setja einbeitinguna á prófið núna.“